miðvikudagur, 26. desember 2007


"mamma mín, ég er með hjarta hér! (bendir hægra megin á brjóstkassann) og hér! (bendir vinstra megin) og annað hjarta uppá hausnum og ef að ég tek hausinn af hálsinum þá er hjarta sem geislar svona út um allt! (brosir og baðar höndunum í allar áttir)."

Gleðileg jól!

miðvikudagur, 19. desember 2007

Bar þessa kassa alla út í bíl og út úr bíl og upp tröppur og stiga og mundi hvað ég flutti oft ein í gamla daga en ég hef ekki gert það lengi og þess vegna rankaði ég við mér við þetta rof á venjum, já fyndið að það skyldi vera orðin venja hjá mér að flytja með öðrum en þannig er það ekki lengur, ekki núna að minnsta kosti. Það er gott að finna fyrir sér, gott að bera alla kassana sjálf og gott að vinna fyrir aurunum sínum. Já elskurna mínar, Bíbí er orðiðn þjónustuskvísa í doppóttum kjól með blúndusvuntu á ónefndum stað við ónefnda grugguga tjörn og mér finnst það gaman, að leggja á borð og taka af borðum og þeysast með mat og fat og hella víni í glös og brosa framaní fólk og má ekki bjóða þér Tiramisu?! Oseisei, ætli maður sé ekki með óráði bara, komin nótt og þreytan farin að segja til sín. Langaði bara svo til að segja þér þetta herra Algeimur, ertu kannski frændi hans Altungu, nei djók og góða nótt bara. Jú, og síðan opnaði ég kassana og upp úr þeim streymdu allar þessar minningar, tíu kassar af fortíð takk fyrir og heyrðu, hún er nú bara dáldið sæt þessi stelpa þarna á myndinni, svona líka brún og algjör skutla að krúsa um grísku eyjarnar, já einu sinni var og engin veit sína ævina...

fimmtudagur, 13. desember 2007

vaxholkur

Sker niður appelsínur og stoppa í ævagamlar blúndugardínur. Kveiki á gufunni með blóðugum fingrum og heyri rödd Ólafar frá Hlöðum tala til mín úr eilífðinni. Þessi elska. Hún kveður um konur og hún kveður um menn. Rómurinn er forn og slátturinn þungur og ég finna að þá var ég ófædd en nú er ég hér og hamraðu Ólöf hamraðu mig með bylgjunum þínum, ég heyri brak og ég heyri bresti og röddin þín er faðmur og við hreyfum okkur saman í takt við ískrandi snúning vaxhólksins. Ég sé þig taka skæri og klippa síða hárið og ég heyri skröltið í prjónunum þínum og krafsið í pennanum þínum og þegar þú þagnar sakna ég þín, mænan er víst eins og gömul símasnúra og þegar maður klippir hana standa taugaendarnir í allar áttir...

fyrir þig Jane

Eftir tuttugu og fjórar klukkustundir plús tvær verð ég frjáls Jane ég verð frjáls eins og þú en akkúrat núna er ég flækt í söguna þína Jane og ég fíla það og ég veit að ég kemst hvort eð er ekki út fyrr en á morgun plús tvær klukkustundir Jane mín Eyre það er gott að vera núna þú og ég vil líka finna frelsi og ég vil líka arka um heiðar og ég vil líka vera sterk og ég vil líka finna minn Rochester svona eldheitan og myrkan djöfska og sálufélaga og spegil og allt og tuttuguogfjórirplústveir og þá er ég flogin!

laugardagur, 8. desember 2007

Skammdegi

Labbaðu ljúfan mín eftir endilöngu Bergstaðastræti. Jájá, ég veit, maður hefur nú frekar tilhneigingu til að grúfa sig niður, setja höfuðuðið undir sig og rýna í ræsið, telja línur og fantasera um svarthol og hindurvitni. En góða mín, röltu þessa götu og horfðu svo beint af augum (ekki upp, þá missirðu af henni þessari elsku). Þá mætir hún augunum þínum, svona líka kringlótt og heit, glóandi gull. Baðaðu þig í glóðinni stelpa, settu stút á varirnar og rektu framan í hana tunguna, rauða og sæta. Breiddu út faðminn og stútfylltu tankinn!

Út um eldhúsgluggann sé ég upplýsta rák á ljósbláum himni. Fyrir stafni er þota.

föstudagur, 30. nóvember 2007

"kartöflum" svaraði hann

Kuldaleg þessi hlaða úr steini. En þá verður maður bara að sanka að sér bókum. Tína þær úr hillunum, rogast með hlassið í hólfið sitt og koma sér makindalega fyrir - eins og belja við básinn sinn. Jórtra á síðunum eins og rolla í fjárhúsi og drekka kaffi í tonnavís eins og tannlaus og sköllóttur bóndi.

Rölta svo heim með góða samvisku og bækur í hvítum plastpoka. Hitta einn frá fornu fari og draga hróðug Málfríði upp úr pokanum: "Sjáðu! Ég tók Málfríði Einarsdóttur á bókasafninu." "Bíddu, hver er hún aftur? Flott kápa." (Hann á sum sé ekki við mína, heldur þá á bókinni). Ég byrja að muldra eitthvað um fallegt tungumál og idolið hans Guðbergs en þá rifjast upp fyrir mér hvað við erum - og vorum, ólík. Hann í beisikk stöffi og ég alltaf í smá vandræðum með að halda sjálfinu innanborðs...

En textinn hennar Másu flæðir ekki yfir bakka:

"Hvað ætti það að vera?" spurði konan. "Kartöflur," svaraði hann. "með hverju?" spurði hún. "Kartöflum," svaraði hann.

(úr Auðnuleysingi og Tötrughypja)

miðvikudagur, 28. nóvember 2007

og talandi um það, smá drekaspá frá Lutin:

Don´t even bother to try to hide love, grief or passion, because WATER IS UNPREDICTABLE.

Það er nebbla það.
Ég er ekkert á leiðinn þangað sko,
rýni bara i lykkjurnar
og prjóna mig burtu frá passjóninu sko.
Gugna hvort eð er alltaf á Vesturbæjarlauginni...

ruggirugg og rororo

Allt í einu rann það upp fyrir mér. Lífið er bara þetta. Þessir prjónar, þetta garn, þessi rigning, þetta skammdegi, þetta uppvask. Haltu fast í það stelpa og ekki vænta of mikils. Þannig er það best. Borgar sig ekki að rugga bátnum...

fimmtudagur, 22. nóvember 2007

varla macro (spænsk leikkona)



ég held að þetta sé ekki ég kannski brot í fortíð eða framtíð inni eða úti í micro en varla macro

mánudagur, 19. nóvember 2007

elsku besta heljargin...

Ég ræð ekki við það. Eins klisjulega og það hljómar, þá myndar þetta þorp, þessi fjöll og fjörðurinn allur landakort af sálu minni. Ég þekki engan stað jafn vel. Ekki einu sinni mig sjálfa. Þessi fjörður er ekki kvikull, hann er stöðugur, úr föstu efni og alltaf þar. Alltaf hér. Og heilög María hvað mig langar Vestur í þennan faðm. Þetta verndandi heljargin. Ég stelst þangað í huganum annað slagið, ýmist í draumi eða vöku. Mig langar bara í smá skammt. Nokkra daga af súrefni úr firðinum mínum. Þarf svo mikið að fylla á tankinn. Hlaupa upp brattann og finna sársauka í lungunum af áreynslu, rölta í fjörunni og strjúka steinunum. Finna kuldabola bíta í kroppinn. Jamm, það langar mig. Ég faðma þennan fjörð. Hann er inni í mér og þegar við hittumst, þá er ég heil. Hann er mitt heima. Þannig er nú bara það.

Fix a fiskatimum

because you know who is waching us
and I don´t mean the government
...
so abandon selfserving agenda
...
and oh yes
water is unpredictable

sunnudagur, 18. nóvember 2007

pastelrugl

Ókey, til að fyrirbyggja allan misskilning þá var ég að fíflast.
Og þetta er ekki Þorgrímur Þráinnsson, enda myndi hann ekki einu sinni snerta menthol! Borðar örugglega ekki majones heldur.
Bíbí og Þorgrímur - glatað par.
Gleymið því!

föstudagur, 16. nóvember 2007

Majones (þú varst hjá mér...)

Mig dreymir þig í pastellitu herbergi. Yfir hnjánum er hvítt lak. Tveir tindar í svissneskum ölpum. Þú liggur í rúminu og reykir menthol. Blæst hringi og stróka til skiptis. Þegar þú hreyfir þig heyri ég gutl í vatnsdýnu. Þú ert súkkulaðibrúnn páskaungi, loverboy í Hollywoodmynd. Hárið gyllt og varirnar bleikar. Við smyrjum okkur franskbrauð með majonesi og skellum á það aspas og skinku. Örbylgjan gerir kraftaverk á ostinum. Klórum hvert öðru á bak við eyrun og skolum dásemdinni niður með súkkulaðisjeik. Í gegnum rifu á rimlatjöldum sé ég himinn, hann er bleikur og blár. Ég elska þig. Þetta er nylonveröldin okkar. Djöfull ertu sætur pastelgrísinn þinn. Halló?! Halló?! Ertu þarna?

ljómandistustustust

Mikið sem það er skemmtilegt að eiga afmæli. Klæða sig í undurmjúkt og fjólublátt silki, opna pakka og dansa fram á rauða nótt (við misfjarskylda ættingja) ræríræríræ! Elsku vinir mínir, takkedítakk! Þið eruð ljómandi kompaní (er til efsta stig af ljómandi?, held ekki, en ef það er til þá ætla ég að nota það í staðinn...)

laugardagur, 3. nóvember 2007

"Jæja skotta mín, eigum við að fara á myndlistarsýningu?" Litla veran rekur upp stór augu og stígur tvö skref afturábak. Horfir stíft á mömmu sína og spyr: "Er það hættulegt?" "Nei, nei" segir mamman en íhugar um leið hve stórkostlegt það væri að komast á hættulega listasýningu, að vera á leiðinni í Bónus en koma við á Nýló og komast í hann krappann. Finna tilvistina hanga á bláþræði, upplifa smáskammt af lífsháska áður en maður fer að kaupa klósettpappír, kattamat og mjólk. Lífsháskinn náttúrulega jafn gufaður upp úr myndlistinni og öðru sviðum la vida. Það er helst að verða fyrir matareitrun eða erlendum flóttamanni í hælisleit, þeir ógna jú þjóðaröryggi þessir déskotar. Kannski að sjósund sé málið. Náttúrulega lífsfylling í lífsháskanum sko, tilgangur í baráttunni. Niðurstaðan verður öryggið heima, möllum okkur heitt súkkulaði og setjum upp sýningu á eigin vatnslitamyndum. Bjóðum svo bara herra Háska á opnunina.

mánudagur, 29. október 2007

Kannski

að tilgangurinn fari að flæða sem ólmur nú þegar styttist í próflestur. Dettifoss af djúsí stöffi fyrir huga og sál. Það skyldi þó aldrei vera. Auðvitað hefur maður ekkert nema gott af örlitlum utanaðkomandi þrýstingi. "Kveður þú foss minn forni vinur / með fimbulrómi sí og æ / undir þér bergið sterka stynur... " svo man ég ekki meir, minnir að næsta lína gangi út á viðkvæmt strá undir verndarvæng kletts og fossa. En víkjum að öðru, tími til kominn að hitta elskurnar sínar, dreypa á rauðvíni og lesa með þeim ljóð eftir löngu dauða íslenska karla. Þá hlýtur andinn að fara á flug og við getum andskotast þetta saman - ölvaðar og andsetnar. "sem strá í nætur kuldablæ..." Ég er ekki að grínast.

Hlustið

nú á óvenju vitrænt leikhússpjall Jórunnar og Jóns (ekki Viðars...) í Víðsjárþætti dagsins. Þar heldur Jón Atli því til dæmis fram að hégóminn sé það sem stendur íslensku leikhúsi einna helst fyrir þrifum.

mjaaauuu!!

Kötturinn minn er vitlaus. Hann heldur að hann sé læstur úti á þaki, fattar ekki opinn glugga sem stendur honum til boða. En ég tala ekki kisumál og þarf því að umbera mjálmið þangað til hann uppgötvar sjálfur að hann kemst inn um þennan galopna glugga. Á meðan skelli ég gluggunum hér á neðri hæðinni í lás, til að hlífa eyrum og viðkvæmum taugum konu á röngum tíma mánaðarins. Hækka í útvarpinu, á auðveldara með að umbera notalegt Víðsjármalið í Eiríki. Þessi rangi tími vill reyndar oft leiða af sér ágætis aðgerðir. Til dæmis smásmugulega vandvirkni við ítarleg þrif á ruslaskápum með fúkkalykt og lekum pípum. Smávaxna undraveran varð innblásin af mömmu sinni. "Mig langar að þvo tunguna mína" sagði hún eftir að hafa heillast af og bitið í fagurrauðan chilli og þrjú glös af Ribena höfðu ekki gert trikkið. Já, þannig líður mér líka þegar ég stend sjálfa mig að of stórum skammti af kvarti og kveini. Hvernig var þetta annars með sápuþvott og barnatungur í gamla daga? Æi, ekki nema von að aumingjans kötturinn væli í þessum kulda. Kynni ég katttamál Gosi minn þá myndi ég segja þér að snjókornin græða (Eiríkur er á flugi í dag og kallar þau "blóm") og að þér standa allir vegir opnir, kannski ertu ekki vitlaus, þú þarft bara að átta þig ljúfurinn. Velkominn vetur.

föstudagur, 26. október 2007

Even the pope is hungry today

jájá ljúfurnar, það gerir tunglið
Ef ég sofna ætla ég Vestur, í afahús. Þrýsta enninu upp að rúðunni og horfa út fjörðinn, á ljósin á eyrinni.

blussa jakki sokkur ...

Inn um lúguna læðist harðspjalda barnabók með blárri kápu. Innihaldið er notalega mjúkt: "Háttatíminn minn". Best að setja upp furðusvip. Skemmtilegra að vita sem minnst um uppruna óvæntra glaðninga. Langar til að taka stökkið út í nóttina og yfir tjörnina, fljúga yfir þessar greinar, fram hjá þessu stóra tungli. Með bókina undir vinstri hendi. Enda í gráu skeljasandshúsi með útsýni yfir vinnuvélar og sjó. Hjúfra mig á milli tveggja líkama, misstórra, undir dúnsæng sem yljar. Lesa hátt og snjallt:

Háttatími, þá háttum við
hengjum upp dagsins klæði vel
Setjum til hliðar sokka og skó
sátt og glatt er vort hugarþel.

Síðan á að benda:

blússa
jakki
sokkur
skór
kjóll
sokkur

Í staðinn hjúfrar sig að mér bröndóttur köttur með græna ól, undir gulum hálfmána úr plasti.
Það veit sjaldnast á gott að dreyma tennur, hvað þá tannmissi. Tennur eru rætur.
Hvað eru nokkrar dauðar rottur á milli þilja?

blússa
jakki
sokkur
kjóll
tönn
veiðihár
skott
ól
kló
...

mánudagur, 22. október 2007

frændur eru fínir
fyrrverandi eru ágætir
en heyra fortíðnni til
frændur eru nokkuð stöðugt kompaní
tala nú ekki um
ef maður man eftir
því að snæða með þeim vöflur
af og til
núið
er líka ágætt bara
faðmlög eru ljómandi
sérstaklega þau sem vara heilar nætur
sjúddírei
kristallar gera kraftaverk
og mikið sem það er gaman
að dilla sér í bláum kjól
ó já!

föstudagur, 19. október 2007

kökudeig


Þetta er sem sagt eldhúsið mitt - já, og sólin. Ég er voða mikið þar núna. Meldaði mig hvorki inn á ljóðahátíð, frumsýningu né Airwaves. Sequenses mun líklega sigla óséð hjá líka. O sei sei. En, ég hélt hið fínasta afmæli, bakaði, eldaði mat, málaði veggi, þvoði ullarföt í höndum, hengdi upp þvott, hengdi upp þvott, hengdi upp þvott... og nú horfum við saman á Barbafjölskylduna. Barbapabbi er allt umvefjandi vera, breytir sér í kyrkislöngu og krana og bjargar fjölskyldunni úr kjafti krókodíla. Ég fíla Barbapabba. Væri til í að eiga einn svona sprellifandi metamorfósupabba. Því hann er fljótandi eins og ég, ekki óumbreutanlegur fasti, ekki tvívíð mynd, o seiseinei. Bara mjúkt og bleikt kökudeig sem passar upp á sína.

miðvikudagur, 17. október 2007

nokkuð ljost

Mála veggi eins og óð. Hvitt yfir þrúgandi brúnt. Léttir, léttir, léttir. Er víst ekki ein af þeim sem sjá ekki hvíta fleti í friði - finnst þeir verði að fylla út í alla birtuna. Nei, mín vil bara ljós, ljós og meira ljós. Bjart, bjart og meira bjart. Nenni ekki dramatík. Hún er búið spil. Elskulega líf, tökum slaginn! Já skotta mín, skorum nóttina á hólm því við eigum nóg af luktum. Og Yoko má fara að vara sig, luktirnar okkar eru alvöru og þær eru margar. Luktirnar okkar ljúfan mín, þær teygja sig í hring og allt um kring...

mánudagur, 15. október 2007

Sunnudagsmorgun og það hefur rignt blöðrum. Nema þær hafi sprottið upp úr gangstéttarsprungum eins og illgresi. Þær liggja á víð og dreif, samviskusamlega uppblásnar og ánægðar með sig, upprifnar eins og ungliðar í stjórnmálahreyfingu. Inni í porti liggur lítil krumpuð blaðra í drullupolli. Langt því frá að vera þrýstin sú arna. En hún er bleik. "Mamma má ég eiga þessa? Er þetta bleeeeiiika ammælisblaðran mín?"


Lítil yndisvera með whiskeyrödd átti afmæli á föstudaginn. Jájá. Maður á hálfgert afmæli sjálfur á svona dögum. Hún er svo kúl á því þessi elska og ákvað að slaka aðeins á eftir þriggja daga veisluhöld, eins og sannri stjörnu sæmir, með sólgleraugu og einkabílstjóra...

"mamma, eigum við að fara út í nóttina með lukt?"
"mamma, eigum við enga lukt?"
þar sem langá rennur eftir
langadal er svo ósköp stutt
í eitthvað ófætt sem minnir
á sig með blakandi vængjum

(Vésteinn Lúðvíksson)

fimmtudagur, 11. október 2007

i botn!

Skál fyrir þér Doris mín.
Mikið var...

þriðjudagur, 9. október 2007

ostemad

Regl nr. 1:
Naar man er trist saa skal man ikke snakke om triste ting, det bliver saadan lidt som ost oven paa ostemad.

margvísleg merking bakgarða

We are all here to relieve the suffering of others
not control them
so deal with your own issues
don´t blame
don´t bitch and moan
and keep reaching out
people love you
believe it or not!

Er ekki upphaf nýrrar viku góður tími til að sá fræjum sem þessum?
(Á íslensku útleggst þetta líklega sem "haltu þig á mottunni!")

laugardagur, 6. október 2007

kotilettur

Tilveran óneitanlega tómlegri á pabbavikum. Sérstaklega fyrstu dagana sem eru seigfljótandi andskotar. Vel meinandi frænka birtist með plastpoka fullan af heimaslátruðum kótilettum á síðasta snúningi. Gapandi kjötpoki á eldhúsborði. Magnar upp einsemdina þessi déskoti. Gott ef hann hlær ekki hrossahlátri, hahaha! Best að fá sér að reykja. Kompaní í því. Maður getur sossum ráðist til atlögu en þá verður að velja hæsta tindinn, ógurlegasta skrímslið, mestu líkurnar á sigri þar. Ráðast á kjötfjallið með kjafti og klóm. Marínera kótilettur og elda fyrir ímyndaða gesti. Lesa smá í Ógleðinni hans Sartres, nóg af kjötskrokkum þar. Fara síðan í bíó, ein á laugardagskvöldi. Jájá, sossum áskorun í því. En neinei, hvaða vitleysa. Caprí skilur þig aldrei eftir eina. Og hurru! Er ekki púrtvínsflaska í hornskápnum? Svo er lambakjöt alltaf gott daginn eftir, með góðri sósu og svona. Mig langar til útlanda.

fimmtudagur, 4. október 2007

einu sinni api...

"Ég er maður og það er nóg til að láta sér líða illa".
Þannig komst enskur rugludallur og kirkjugarðsskáld að orði.
Meiri vitleysan.
Einu sinni api, ávalt api....

miðvikudagur, 3. október 2007


Þessa dagana eru það haustlitirnir sem rúla. Svo hlý þessi gulu og rauðu blöð. Velkominn október.

mánudagur, 1. október 2007

lög og regla

Leikfimikennarinn minn er húmoristi. Ekki sem verst að eyða hádeginu í að gera "maga, rass og læri" við undrleik djúpra radda Lögreglukórsins.

laugardagur, 29. september 2007

blessað duftið

B: öskustóin er ekkert slæmur staður að vera á. Maður verður bara að baða sig upp úr öskunni sko.
F: ég á engan matarsóda.
B: Turninn og Dauðinn sko, maður verðu svo bara að gera eins og Fönixinn. Rísa margefldur upp úr duftinu....
F: æi ég nota bara kanil. Maður er nefnilega rosalega lengi að baka svona gulrótarköku.
F.U.: Mamma, mig langar í bleeeeeiiika blöðru.

föstudagur, 28. september 2007

sullskor

Helvíti gaman að smala. Hlaupa upp og niður brattann undir leiðsögn blótandi bænda. Silhuetta af fallegum frænda sem stendur uppi í klettum sperrtur eins og rómversk stytta. Rolluhópur við það að sleppa handan við urð en þá birtist veðurbarið öskur í rauðum jakka og reddar málunum. Ferðumst í flokk inn með firðinum, dalir eru tæmdir og smám saman fjölgar í hjörðinni. Sumarjarm er ein og ein kind. Haustjarm er hærra, þéttara og iljar í sálinni. Það hefur fennt og kuldinn bítur en hamagangurinn hitar. Minning um hó og klapp býr í kroppnum og eftir smá upprifjun hrífst ég með og öskra úr iðrum eins og rauðnefjaður og heiðskýr bóndi. Missi annan skóinn í á, hleyp á einum sokk og tekst að veiða hann upp . Hægri fóturinn ískaldur en varmasokkar bjarga. Smala restina í sullskó, með sólheimaglott.

fimmtudagur, 27. september 2007

blessaðar...


Déskotans blessaðar ræturnar.
Get bara ekki slitið mig frá þessum stað.
Og svo skammar maður aðra fyrir að geta ekki klippt á naflastrenginn. Flísin og bjálkinn og allt það...

mánudagur, 24. september 2007

Jájá

Afi: Heyrðu. Hvernig á að elda þetta þarna... sem er svo mikið af í skápnum undir eldavélinni?
B: Ha? Meinarðu pastað?
Afi: Já, þessar makkarónur þarna.
B: Við getum til dæmis búið til sósu úr tómötum og basil og hvítlauk og ....
Afi: Jájá, heyrðu, vilt þú ekki bara elda eithvað úr þessu?
B: Jú, ég get gert það. Til dæmis í hádeginu á morgun.
Afi: Já en ekki í kvöldmatinn því þá ætla ég að elda fiskibollur úr dós og gera karrýsósu með. Mér finnst það svo gott.
Frændi: Já, Ora fiskibollur eru bestu fiskibollur í heimi.
Afi: Jájá, þú finnur út úr þessu með tómasósuna og makkarónurnar.

miðvikudagur, 19. september 2007

borða mold

Er að huxa um að hverfa inn í skáldsögu eftir Kristínu Ómars og leggjst undir runna og borðað mold á meðan stormurinn gengur yfir.

mold

Og svo gróðursetjum við tærnar og förum í sólbað með bringunni. Skemmtilegt myndmálið hjá kramhússnótum.

þriðjudagur, 18. september 2007

sko ljosin

Algjör útlönd þetta kramhús í porti. Gott að fara þangað, kvölds og morgna og um miðjan dag. Nota kroppinn. Næra kroppinn. Ekki sitja heima og sakna. Sat í bíl í rigningu og sá fallegt skáld með stóra loðhúfu, með síða ljósa hárið sitt. Kom úr undirgöngum í rauðum skóm þessi elska. Við brunuðum áfram en hún hinkraði eftir ljósaskiptum. Borðaði nýveidda bleikju í raðhúsi. Svo fersk að hún bragðaðist eins og rigningin namminamm. Gott að fá skutl til baka og knús í bíl - í rigningu. Já, maður gerir bara allt í rigningu þessa dagana.

mánudagur, 17. september 2007

sunnudagur, 16. september 2007

leave the table

já, og svo er það Nina:

"You´ve got to learn..."

You´ve got to learn to show a happy face
jamm og to leave the table
show everybody that you can leave
without saying a word
og svo framvegis...

Gott að endurprógramera sig við undirleik sefandi tóna.

á Capri pakkanum stendur "Reykingar eru mjög ávanabindandi, byrjaðu ekki að reykja." Jamm, gott að einhver reynir að hafa vit fyrir manni. Jújú, víman býr víða. Verst að það skuli vera svona margt (og margir) krassandi og ávanbindani í þessum heimi . Annars ku ein víman leysa aðra af hólmi - og margur verri en Capri, svo mikið veit ég. Og þá er nú ljúft að þekkja Ninu.

jasminur

Bíbi mælir með því að fylgjast með jasmínublómum sem opna sig hægt í bolla af sjóðandi heitu vatni.

föstudagur, 14. september 2007

fimmtudagur, 13. september 2007

við grugguga tjörn

but when you´re actually living it
it´s no picnic
unless you enjoy picnics under a truck

Þetta sagði Lúlli í gær. Já, ansans vandræði að vera rekandi sig uppundir í svona líka fínni lautarferð. Ég geri ráð fyrir að kvöldið verði notalega exótískt. Við hlaupum í rokinu og laufin segja hviss hviss. Forðum okkur inn í gamalt timburhús við grugguga tjörn. Nokkur skraufþurr og sniðug lauf lauma sér með okkur inn um dyrnar. Hviss hviss. Salurinn er grænn og listarnir gylltir. Hér er hátt til lofts. Hlustum á vitra konu frá Kínalandi segja frá. Hvílum í vitund hvers annars. Mikið sem þá verður gott að hlýja sér.

miðvikudagur, 12. september 2007

Knutur

Ógleði er svarthol. Í hnésíðu pilsi með hnút í hári. En þú ert ekki sem verst góða mín, hreint ekki sem verst. Þetta kemur. Steypiregn. Helliregn. Best að hætta á kvíðastillandi og byrja að reykja. Púff púff. Áhrifin eru góð og reykurinn er róandi. Sígarettur eru höndlanlegar. Ekki litlar hvítar töflur i dós sem eiga að laga. En þær losa ekki, þær deyfa. "Einkennin" eins og doktorinn orðar það. Ljósarkrónurnar eru hvít blóm og þær stækka herbergin. Á bleikum miða stendur: "elskan, ég vil ekki hafa þetta svona." En þetta er svona. Engin vill "hafa þetta svona". Þetta er svona og þú ert ein. Ein í svörtu pilsi með hnút í hári. En þú ert ekki sem verst. Mundu það.

þriðjudagur, 11. september 2007

bummbummbumm...

Ellefti september. Léttir. Veit ekki hvers vegna. Nýtt upphaf. Loksins. Rifja upp ellefta september 2001. Á leiðinni heim úr rómansreisu um grísku eyjarnar og sem við sigldum inn í Aþenu blöstu við hrynjandi tvíburar á ótal skjáum, tvíhyggjan að falli komin búmmbúmmbúmm...

Undarlegt augnablik, og afdrifaríkt. Atburður svo ógnandi að bara má tala um hann á ammælisdaginn. Þess á milli látalætin ein. Sumt má ekki snerta. Því pot í kviku veldur hinu óbærilega. Önnur saga það. Hið nýja hér tengist öllu persónulegri vettvangi (ekki það að heimsmálin séu ekki persónuleg - og það mun persónulegri en okkur grunar). New eclipse segir Lutin og new eclipse segir líkaminn. Hinn dyntótti konukroppur, óumflýjanleg áminning, sæt og súr.

Ellefu er líka betri tala en tíu. Ekki núllpúnktur, ekki sjálfhelda, ekki stöðnun, heldur tvöfalt upphaf.

mánudagur, 10. september 2007

Sumt i þessum heimi

Þann 23. október 1881 ritaði Rannveig nokkur Ólafsdóttir Briem Eggerti bróður sínum eftirfarandi línur, alla leiðina frá Winnipeg til Íslands:

"Góði bróðir!
Hversu undarlegt er ekki mannlegt hjarta. Hvað afl stýrir vilja vorum? Hvaða rödd er það, sem segir manni að gjöra það sem hvorki er gott eða illt eða sjálfsagt, til dæmis eins og mér að fara nú að skrifa þér?... Getur nokkuð verið réttara en rétt?... Er það skylda að fordæma það sem synd er? Er jafnsár hryggð hins kaldlynda og hins heitlynda?...Er nokkur sönnun fyrir því, að tíminn líði einlægt jafn hratt? Hvað skyldi nú vera langt þangað til ég fæ bréf frá ykkur og fréttir? Hefir baðstofan þín tekið miklum framförum í haust?... Getur samvizskan sofið?... Hvað er sérviska? Er það satt að við systkynin séum sérvitrari en fólk er upp og ofan? Er endurminning liðinnar sælu sár eða sæt? Sumt í þessum heimi er kallað guðlegt, sumt djöfullegt, en hvað er þá sannarlega mannlegt? Á hvaða aldri er maður vanalega sælastur?... Hvort er heitara glóðin eða loginn? Hvað álítur þú best við kvefi? Hafa peningar nokkurt sérlegt aðdráttarafl framar en annar auður? Langar þig ekki til að ferðast til Kínalands?...
Getur þú, elskaði góði bróðir fyrirgefið línur þessar systur þinni
Rannveigu."

laugardagur, 8. september 2007

Bo nyt

Jæja, þá er það ákveðið. Húsið skal seljast. Í fyrsta skipti á ævinni leggst það vel í mig að vera að fara á leigumarkaðinn - til lengri tíma. Fasteignakaup eru fyrir þá sem standa fjárhagslega undir því, ójá. Hvort sem það selst strax eður ei - þá skal flutt. Nýir tímar og góðir eru framundan. Hver veit nema plastparket og gráar steinflísar verði mínir bestu vinir áður en langt um líður...
Elskulegu systur, megi kvöldið og það sem eftir lifir dags verða ykkur góður biti!

fimmtudagur, 6. september 2007

one more...

Já, Bíbí er komin heim. Reykir Caprí að vanda og hlustar á Ninu og Dylan. You´ve go to learn...... og One more cup of coffee.... Tínir sólber í garðinum og horfir á teiknimyndir í góðu kompaníi. "Mamma! Má ég fá meiri kleinu?" Eldar lasagna, allir velkomnir í mat, trist að elda alltaf fyrir tvo...

mánudagur, 3. september 2007

rvk logar lika



Í Reykjavík er minna um líðandi gámaskip. En sé horft til himins má sjá fokkerana líða hjá, drekkhlaðna af farþegum og flugfreyjunum sætu.

Að hún rækti garðinn sinn
svona alla vega fyrst um sinn
dansi síðan stríðsdansinn
í glóandi bleikum logum.....

sunnudagur, 2. september 2007


afaskemma

miðvikudagur, 29. ágúst 2007

hvítur kjóll


Í dag dekka skýin himininn og meira til. Fjöllin fín í hvítum kjól og faldurinn teygir sig alla leið niður í fjöru. Þenur sig af þrá í þörunga og salt. Rigning hér og rigning þar. Skyldi rigna allsstaðar? Sensúalið býr í hlýju stórborgarregni. Sossum hægt að vera stórborgari í sveit, það er ekki það.

þriðjudagur, 28. ágúst 2007

so the silence between the beats can be a little scary

því þar býr thrillið...

það er fix dagsins

mánudagur, 27. ágúst 2007

snerting

Krumminn á skjánum
komdu inn
og kroppaðu dáldið í naflann minn
Krumminn á skjánum
nú kem ég út
skál og við drekkum af stút!
Krumminn á skjánum
þú ert vinur minn
þú ert ekki eins og hann þarna hinn
Krumminn á skjánum
er þetta er búið spil?
"Nei, því þú ert ánetjuð skotta mín, og færð sæluhroll
finnirðu dálítið til..."

sunnudagur, 26. ágúst 2007

næstumþvíhaust...

Í nokkur ár, nánar tiltekið fimm, var ég reglulega grasekkja. En ekki meir. Nú eyði ég kvöldunum í spjall við afa, til dæmis um slátturvélar.

Borðið er kringlótt og rjómalitur plastdúkurinn er þakinn kaffislettum. Sumar eru nokkurra daga gamlar. Á meðan við röbbum sópar afi reglulega sandkökumylsnu af borðinu. Hann ræskir sig, skellir saman fölskunum og þurrkar sér um munninn með handabakinu. Ég er byrjuð að reykja ótæpilega og skilst að það sé bara nokkuð algengt í hvers konar fæðingarhríðum, svona til að róa taugarnar. Afi hefur áhyggjur af túnunum við bæinn, sem í fyrsta skipti í meira en öld eru óslegin. Mér finnst þau falleg, svona rauð í haustinu, sérstaklega þegar blæs. En hann er þrjóskur og vill slá, búinn að fá nágranann til að festa slátturvélina við traktorinn. Þegar spjallinu sleppir fer ég út og sting mér á kaf í grashafið. Bleikt teppi sem bylgjast og sefar þannig söknuðinn eftir hlutanum sem vantar, litlu Funu minni. Afi ræsir dráttarvélina og lullar í hringi á túninu. Á vélarhlífinni stendur "Massey Ferguson". Hún er rauð eins og stráin og höktandi vélarhljóð vaggar mér í svefn.

laugardagur, 25. ágúst 2007

Lobbývaktirnar eru langar og mig langar út - í berjamó. Lobbýdama með blóðuga fingur og berjablátt bros. En kokkarnir bjóða upp á annars konar þrúgur og ég fæ hvítvín með matnum, namminamm. Tyggjó drepur ilminn og nú er ég lobbýdama með extracolgatebros. Jammjamm

smáskitterí...

"Sko, lögreglan hefur öðrum og stærri hnöppum að hneppa, hefur ekki tíma fyrir svona smáskitterí...." Umræðuefnið (einræðuefnið er reyndar nærri lagi) er stóraukin útgerð vasaþjófa í Evrópu. Sjálfur segist hann þekkja sérstaklega vel til þessara mála í Róm. Hann pýrir augun þegar hann miðar og reynir að stinga pennanum í hvítan og glansandi plasthólk sem á stendur Visa Ísland. Honum gengur illa að hitta í holuna og penninn skilur eftir sig blekrákir þegar hann rennur niður utanverðan hólkinn, aftur og aftur. Svartir augasteinarnir eru rammaðir inn í litla kringlótta gleraugnaumgjörð og stemma á undarlegan hátt við bóluörin á kinnunum. Í glasinu er appelsínusafi sem fyrir stundu var hluti af morgunverðarbakka elskunnar hans en er núna orðin að hans eigin vodkablöndu.

föstudagur, 24. ágúst 2007

fimmtudagur, 23. ágúst 2007

plástur


"Ég er ekkert orðin ruglaður!" segir hann pirraður. "Nei, ég var ekkert að segja það afi minn." Elsku afi minn. Já, við erum góðir vinir við afi, alveg hreint. Nú erum við tvö í höllinni. Og höfum það svo gott saman. Mín svona líka róleg í hjartanu og hann bara rólegur líka, þrjóskur - en rólegur þegar honum líður vel. Nýklipptur og fínn, japplandi á heimagerðri rúllupylsu. "Tja, þetta er nú eiginlega hangikjöt" segir hann og sker í bleika pylsuna með best brýnda hnífnum í fjórðungnum. Ekki furða að ég hafi verið sískerandi mig í fingurna í allt sumar, plástur á öðrum hverjum fingri. Brosandi lobbýdama með blóðuga fingur.

fimmtudagur, 16. ágúst 2007

nagli

Naglalakk og Nietcz....
æi bíðiði aðeins,
hvernig er þetta aftur skrifað.....
jú! Nietzsche.
Naglinn sá.
Handan góðs og ills á elliheimilinu.

þriðjudagur, 14. ágúst 2007

hestur

Klæjar af óþoli - fyrir núinu. Vil annað, á tímaflakk. Til dæmis á akkúrat hæfilega ferð um alíslenskan skeiðvöll, á fullkomnu og alíslensku, lýtalausu tölti í kyrfilega prjónaðri lopapeysu og flaxandi ljósu hári. Rugl. Að standa ekki í fæturna og blogga brokkandi um óþolið sem snýr fyrst og fremst að manni sjálfum.

Eilíft augnablik á Norðurströnd Frakklands fyrir sex árum, íhaaahhh!:

laugardagur, 11. ágúst 2007

refur

Fallöxin er óspör á sjálfa sig þessa dagana. Lætur bara vaða hægri vinstri. Já,já. En dauðarýmið er víst sköpunarrýmið. Það segir alla vega Blanchot, gamli refur.

föstudagur, 10. ágúst 2007

Undir regnboga

Hann var heill þessi margliti bogi. Náði alla leið frá gamla góða Þorfinni og yfir í Hvilftina. Teygði sig hátt hátt upp í himininn. Við stóðum á Bakkanum með bleikt fjarðarmynnið í bakið. Göptum bara og dæstum. Bíbí, litla wiskýveran, besta vinkonan úr firðinum og falleg Bakkamamma, bein í baki, með ljósrauðar krullur. Hann faðmaði okkur fjörðurinn. "Þú ert ein af oss" sagði húsfreyjan þegar við föðumuðumst allar fjórar í kveðjuskyni. Svo gott að heyra það í firðinum sínum.

miðvikudagur, 8. ágúst 2007

surrender

mildin öll

Rigningin er góð og ágústnóttin líka. Mildandi þetta myrkur. Dempa peinið, droparnir. Fallegasta augnablik dagsins er svefnrofi litlu wiskýverunnar. "Mamma mín" hvíslar hún og grúfir sig í hálsakot. Þá er gott að vera til. Mæta í vinnu með ró í sálinni og spjalla við brosandi túrhesta og Eyju nokkra úr þorpinu sínu. Rifja upp og gera upp. Lobbýið getur beðið.

mánudagur, 6. ágúst 2007

under the gun


"Scorpios are so under the gun it is not funny
but if they keep it professional
they should be alright"



Já, hann Lutin hittir nú stundum naglann á höfuðið. Tek hann á orðinu.

sunnudagur, 5. ágúst 2007

......

Lamb í ofni og Anthony niðursoðin í apparatinu. Bara kósý á ísfirska elliheimilinu. Besta vinkonan og litlu skotturnar lesa sögu um litla rauða (og ákaflega klóka!) hænu. Hún gabbaði sko bæði rebba og mömmu hans! Og jeah, Kilye niðursoðin líka og þær bresta í dans. "Baby baby baby, you know you like it like this.... I'm spinning around.... moove out of my way....... I know you like it like this." Snúsnú, hoppihopp og júbbíjeyh!

Vissir þú annars Þorfinnur darling að það er til lag sem heitir "Balcony smoker"?! Hún Jenny Wilson sko, hefur örugglega sérstaklega samið það fyrir okkur. "Inhale......... Exhale......" (algengur frasi í leiklistarskólum en getur átt við víðar.....).

api

Í allt sumar hefur hún fylgt mér, þessi kona með apann á öxlinni og fjólubláan borða í kolsvörtu hárinu. Hún er í hvítri blússu, með samvaxnar augabrúnir og ég trúi henni fyrir öllu. Ég segi henni frá stund á hjara veraldar, undir svörtum hömrum við babybláan sjó, stútfullan af möguleikum. Eitt alsherjar draumarými. En í staðin fyrir að steypa okkur fram af brúninni tökum við á okkur rögg og höldum heim. Sunnudagssteikin bíður ekki. Fyrr en varir er böðullinn mættur og eldtungurnar standa úr höfðinu á honum. Um leið og hann strýkur okkur blíðlega um vangann, fer hann með aðvörunarorð og náðarmeðalið kemur í formi fallaxar. Snöggt skal það vera, og beitt. "Þetta er bara draumur og verkin tala." Bleikur draumur verður að hálshöggnum hænubúk sem hleypur um garðinn af taugatitringi einum saman. Allt í tómu tjóni bara. Smám saman róast búkurinn og ölduna lægir. Við öndum í takt, ég og Sjórinn, minn gamli vin. Þannig er nú það. Næ landi og geng upp hlíðina. Fer inn í húsið og drekk kaffi með frænku. Hún er glasi og það er gott að tala við hana. Við skilijum hver aðra við tvær.

Ég fann sem sagt hausinn, hann er enn þá á sínum stað, í fullu og beinu sambandi við "göttið" - alveg eins og það á að vera. Samvaxin eru þau herra Búkur og Frú Haus. Simpansinn skríkir, úúhahahhahhaaahahahahaaaa!

fimmtudagur, 2. ágúst 2007

konungur

Í fjörðinn er kominn aldraður konungur. Hann er hvíthærður og lúinn, með fallegt bros. Og Bíbí breytist í litla stelpu sem finnst svo gott að faðma afa sinn. Knúsar hann og kyssir í bak og fyrir. Afi gamli röltir um húsið og grúskar gleyminn í hlutum og minningum. Fór beina leið í kjallarann og sótti innmat í frysti. "Það verður að sjá fólkinu fyrir mat." Sótti líka frosinn rabbabara frá því í fyrra og kokkaði upp graut en , to, tre. Óþarfi að týna ferskan rabbabara ef maður á tilbúinn í frysti... Var alveg hissa á afastelpunni að hafa ekki borðað meira úr kistunni. Kemur ekki til greina að kaupa kartöflur og helgispjöll að henda. "Hvar eru álftirnar?" og "Hér eru fáar sem engar kindur á beit!". Þannig er hann afi minn.


Nú er annað að vera til. Einmanaleg sumarkvöld okkar Þorfinns, Budwar og Capri eru á enda. Húsið fylla nú tveir tíu ára strákar, frænka sem gott er að tala við og auðvitað Bíbí og afi. Á morgun kemur svo allra besta vinkonan með Þuluskott, að ógleymdu fallegasta fyrirbæri veraldar, Funubrosinu mínu einasta!!!!!

þriðjudagur, 24. júlí 2007

Ring of fire...

Svei mér þá ef fjörðurinn stóð ekki í ljósum logum í gærkvöldi. Himininn og fjöllin og allt heila klabbið. Eldrautt bara. Og í útlandaborg horfði lítil vera á eldgleypi. Sagði að sig langaði líka í skóla að læra "svona sjúddíley!". Hún er víst líka búin að fara í dýragarðinn þessi elska.
Hvernig skyldi lífið annars vera á baðströndum í Búlgaríu? Geri ráð fyrir að himininn þar sé sami og hér. Svo lengi sem ekki rignir...

mánudagur, 23. júlí 2007

bakpoki

Einhvern vegin var orðið of þröngt í höllinni hvítu og þungbúin ský lúrðu við sjóndeildarhringinn. Þrúgandi. Sturtaði úr gömlum bakpoka. Á grænum svefnsófa lágu vetrarföt á víð og dreif: blá lambúshetta, vettlingar með gati, nokkur sjöl og treflar. Sópaði þessu út í horn og fyllti bakpokann af því allra nauðsynlegasta: aukapari af gallabuxum, barcelónsku bíkiníi, hvítvínsflösku og glænýju og rándýru undrakremi. Við, akkúrat þessi bakpoki og ég, höfum brallað margt saman. Ferðalög til Hvítarússlands og Nepals að ógleymdri Hornstrandagöngu. "Ekki bonda of mikið við hluti" segir vinkonan. En þetta gerðist bara óvart. Hann var um kyrrt, "stóð alltaf við bakið á mér" á meðan aðrir komu og fóru, á meðan ég kom og fór. Og hér erum við nú, tilbúin í slaginn. Til Stykkishólms skal haldið!
Þegar við lendum þar, rykug upp fyrir haus, ég og Ventoinn minn kæri vin, fáum við rauðvín, osta og óborganlegt kompaní konu með postulínshúð og undurfallegar freknur. Í íbúðinni hennar er allt nýtt og í fyrsta skipti á ævinni finnst mér ég geta vanist svoleiðis lúxus. Ó jeah! Glæný blöndunartæki, glænýtt parkett og glæný plastlykt allt umvefjandi, nú í bland við ilminn af Capri auðvitað... Hún er svo grönn og limalöng þessi kona að Capri fer fáum jafn vel. Og útsýnið, ekkert málverk toppar þetta look, svona líka fagmannlega rammað inn.

sunnudagur, 15. júlí 2007

14. júlí

14. júlí endaði sannarlega á óvæntan hátt svo ekki sé meira sagt. Svo ósköp óvænt og ósköp sárt, sérstaklega fyrir nokkrar sálir sem eru mér svo ósköp kærar.

laugardagur, 14. júlí 2007

kollgáta

"Hvert ertu að fara með mig?" spyr litla undrið vafið inn í stórt bleikt ullarsjal sem ég keypti á tíu krónur í Rauðakrossbúð, ástfangin í Kaupmannahöfn. "Inn í Skóg." svara ég og loka bílhurðinni. Hún er enn í svefnrofanum og sofnar líklegast aftur. "Skógurinn" er Tunguskógur, fallegur staður þar sem dóttir mín fær Rousseauískt náttúruuppeldi á meðan ég stunda þjónustustörf á Hótel Ísafirði. Mér finnst erfitt að kveðja hana á morgnanna en sú togstreita er líklega hluti af hinu eilífa samviskubiti sem fylgir því að vera foreldri. Maður getur alltaf gert betur...
Eftir að eldheitir sólargeislar hafa teygt anga sína inn um gluggann og vakið mig - á undan klukkunni sem er stillt á 6:45 - eyði ég smá tíma í að gera ekki neitt, liggja og horfa á loftið í herberginu eða þá horfi ég út um gluggann á himininn og fjöllin í kring. Þetta sumar, með öllum sínum þurrki og sólskini er á góðri leið með að breyta ákveðnum hluta Vestfjarða, í það minnsta tilteknum fjöllum, í stað sem minnir á Afganistan eða aðra eyðimörk. Ekki það að ég hafi nokkurn tíman komið á slíkan stað en hitinn og þögnin leggjast á eitt um að skapa þessa tilfinningu. Í svona tíð sést hvað Þorfinnur er æfagamall, hann er eins og frumbyggi á sléttum Ástralíu sem horfir með skorpna húð til sólar, gamall, vitur og æðrulaus. Mig langar til að spyrja hann spjörunum úr, um allt sem leitar á sinni mitt þessa dagana. Auðvitað verður fátt um svör, ekkert endurkast. Gleypir bara spurninguna, sýgur hana í sig í gegnum klettaskorurnar. "Þú hefur lykilinn" sagði ein mér kær í gær. Ætli hún hafi ekki átt kollgátuna.

föstudagur, 13. júlí 2007

Amen

Hinn eilífi désk. kvíðahnútur, Amen.
Rígbundinn og margvafinn rembihnútur, pikkkfastur. Stækkar og fitnar og breiðir úr sér eins og púkinn á fjósbitanum. Ég kann svo sem að næra hann, það er ekki það. Og náttúran, maður situr bara uppi með sjálfan sig - svo stór er skammturinn.

Kláraði fyrstu jólabók sumarsins í gær, auðlesna skáldsögu eftir vestfirskt Nýhil-skáld. Skítsæmileg. Klappa mér á öxlina fyrir það. Muna að klappa sér á öxlina, þá minnkar púkinn. Er strax byrjuð á annarri, það róar púkaskrattann. Klappiklapp.

Þessi vísnagáta er góð:

Shake it!
Don't break it!
It took your mama
nine months to make it!!

Og leggið nú hausinn í marineringu.
Að eilífu...

þriðjudagur, 10. júlí 2007

Heimasveit

"Vá! Fjöllin hér eru næstum eins og í Himalaya" sagði besta vinkona Buddah þegar hún kom í Vestrið villta í fyrsta sinn. "Jú,jú, hver miðar við sína heimasveit" sagði ég og við röltum saman um holóttar götur og fílosóferuðum um skotveiðar og önnur andans mál.
Hún kom aftur, og í þetta skipti í kompaníi við undraveruna litlu og sjóarastrák af sveitaættum. Mikið varð ég glöð þegar risafyglið lennti. Brosti hringinn og tók á móti þeim með útbreiddan faðminn. Litla veran var feimin í fyrstu og sagði "hæ mamma, ég er í bleikum kjól og mig langar í kókómjólk með kisa að sparka bolta á."
Svo gott að eiga langt og gott helgarfrí, skjóta rótum og ganga á fjöll. Sigla sinn sjó í trillu - í félagsskap við skipsstráka, suma með kaskeiti og aðra með bokku. Vefja sig inn í ullarteppi frá Sambandinu. Sú litla söng hástöfum frumsamin lög meðan við sigldum út fjörðin. Kannski verður hún trúbador eins og mamman...

fimmtudagur, 5. júlí 2007

frændi

Og þá birtist frændi. "Hæ, ertu með lykla? Mig langar svo að leggjast í sófann og sofna með teppi." Já og júbbí! Gott að eiga frændur og gott að fá kompaní í kastalann hvíta. Þessi frændi á meira að segja vita. Drekka saman öl og borða ostaköku, spjalla og flissa, þegja og horfa á Þorfinn. Annar frændi, öllu fjarskyldari er að sigla hingað trillu að sunnan. Ekki amalegt það! Og þriðji frændinn, líka fjarfrændi, að fara að gifta sig 07.07.07. Gott hjá þeim að gugna ekki. Fallegt að gifta sig á eyri á milli fjalla.

Í fjörunni er álftapar með tvo litla og ljótsæta andarunga. Skyldu þeir líka breytast í H.C. Andersen? Það er orðið að notalegum vana að tékka á þeim áður en ég bruna í vinnuna á morgnanna.

Á morgun kemur yndisveran litla. Hún verður samferða tveimur manneskjum sem báðar hafa lengi átt pláss í hjarta mínu, þótt þær séu sossum nýbúnar að kynnast.
Fríhelgi framundan. Jájájá....

miðvikudagur, 4. júlí 2007

vökva blóm

Í dag er ekki sól og það er ágætt. Allt í rólegheitum og ég man hver ég er. Ég er hér. Engir vindar að sunnan sem rugla mann í ríminu. Bara austurrísk stelpa í bláum stuttermabol sem vökvar blóm af stóískri ró. Sjósund sem kælir og svefn í fjallakyrrð. Derrida nær ekki hingað. Bráðum kemur Funuskott, það verður gott.

þriðjudagur, 3. júlí 2007

já og eitt enn: elsku vinkonur, ÉG SAKNA YKKAR!!!
Er annars einhver á Vesturleið? Litla undraveru vantar fylgd í flugvél því hún slasaði augnhimnuna á pabba sínum, elskan litla.

Takk

"Pétur Jónataaanssooon, barababamm (dillidill)
þeta bréf er til þíhííín.
Herra Pétur Jónaaatansson
þú ert ei lengur ááástin mín.
Ég orðin er leið á að veeera (tja tja tja)
bara brúðan þííín,
barmafuuullur er biiikarinn
og þreeeeyyytt er sála mín
barabbaa dúramm, dúræ....." (New Yorker!)


Og Bibi fór á saltfiskball og það var gaman. Villi Valli, Tómas R. og Jóhanna söngfugl standa fyrir sínu. Gaman að tralla og sveifla sér í góðu kompaníi!

Skyldi sá allra herðabreiðasti, minn steinrunni unnusti, breytast í prins sé hann kysstur? Hi, hi, ég tími ekki að prófa. Hann er svo tryggur eins og hann er.

Jájá, ég veit. Rómantíkin alveg hreint að drepa mann hérna.
Það er bara ekki annað hægt í þessari öskrandi fegurð.
Kannski dey ég úr rómantík hahaha!
Viljiði þá jarða mig hér?
Takk.

laugardagur, 30. júní 2007

ruglirugl

Hér vil ég vera því Reykjavík er ruglandi. Þar gerir maður alls kyns vitleysur, hringir í hitt og þetta fólk og er sjálfum sér ónógur. Hér bakka fjöllin mann upp. Þau rúla. Sjórinn líka. Allt skýrt, ekki línur sem renna saman, þokukennd sýn eða hætta á að leysast upp. Fór til Reykjavíkur og fannst eins og mér hefði verið kastað út í ískalt vatn og berðist við að ná andanum. Það er gott að vera komin heim. Í kvöld ætla ég á deit í firðinum mínum. Við Þorfinnur ætlum að baða okkur saman, hann í sólinni og ég í sjónum. Hér er vel hægt að baða sig í ísaköldu án þess að örvænta. Íhaaah!
Mikið er annars gott að eiga kærasta sem er greyptur í stein...

mánudagur, 25. júní 2007

kindagötur

Að laumast út í bjarta Jónsmessunótt og hitta skemmtilega manneskju, - gúmmístígvél, klettar, sígó, bjór og jú,jú, "ólgandi hafið". Getur ekki klikkað. Kindagöturnar vísa veginn...

Wroooommm!

Í gær fór héðan flugvél. Wrooommmmmm.....! Í henni voru lítil yndisvera með ráma yndisrödd, amma hennar með brotna framtönn, strákur með svarta tösku og heil hersing af hljóðfæraleikurum. Líka kontrabassi og skrýtið hljóðfæri frá Bali. Allt í einu voru allir farnir. En sum þeirra koma aftur - þau sem eiga hér heima. Það er nú gott.
Flugvélaferðir eru magnaðar. Fylgja þeim sviptingar. Dramatískt að horfa á eftir þessu hvíta risafygli, takast á loft og fjarlægjast þangað til það verður að svörtum pínupunkti á hvítum himni. Standa sjálf eftir í fjallaþögn og kveðja ein í kyrrðinni. Stefna heimleiðis - eða eitthvert allt annað - til að fylla upp í tómið.
Koma heim og búast við að geta vafið um sig teppi og endurfæðst en hitta bara úrilla frænku sem segir: "gott að þú ert komin til að hreinsa til". Nú, þá bara hreinsar maður til, vaskar upp og skúrar gólf, gæðir sér svo á gómsætum grísamat sem maður úrillu frænkunnar hefur eldað. Sofna yfir fréttunum, labba í svefnrofi upp gamla bratta stigann og sofa þungt í afarúmi.
Vakna endurnærð í ærandi sumarnótt í fallegasta firðinum. Hringja í bestu vinkonuna og hlæja að myglusveppum og dansandi unglömbum. Það er góður endir á skrýtnum degi.
Má bjóða þér sól?
-Já takk!
Komdu þá hingað í Vestrið til mín. Alltaf sól! -nú, eða logn og ylur.

þriðjudagur, 19. júní 2007

Af himnum ofan

Stundum falla ljósálfar af himnum ofan. Eins og til dæmis í dag; eitt stykki Jósuljós! Takk fyrir mig. Og á föstudaginn kemur önnur dís. Hún mun líka koma svífandi niður úr skýjunum.

montprik

Þetta reddast allt einhvern vegin. Sérstaklega ef maður gerir það sem maður getur. Hvers vegna æsir maður sig þegar maður veit hversu lítið það hefur upp á sig? Best að taka bara æðruleysispakkann á þetta. Gera það sem maður getur og treysta síðan hinu/m. Þannig virðist dagurinn í dag fela í sér lausnir á flestum vandamálum gærdagsins, leigjendur fara...og koma, mæðgur karpa...og sættast. Peningar....hmm já, hvað með þá...?

Athugasemd um líf og tilveru: Sumir menn ganga þannig að bringan kemur fyrst, stendur beint út í loftið. Þeir eru ekki mínir menn enda iðulega smáir að gerð. Eru þó eflaust ágætustu skinn inn við beinið... "Montprik" er sossum líka skemmtilegt orð.

mánudagur, 18. júní 2007

Annars er hún ósköp alltumvefjandi og mildandi vesfirska fjarðaþokan...
Æi, sumir dagar...
tannlæknar sem grufla í tannholdi og koma við fínustu taugar, leigjendur sem láta sig hverfa og mæðgur sem verða ósáttar - Rokið í burtu. Ekki að það sé svosem í fyrsta skiptið..... Allir að hugsa fyrst og fremst um sjálfan sig. Auðvitað, aaarghh!!! En lítil stúlkusnót eru best í heimi og knúsar mömmu sína.
Ég sakna vinkvenna minna!

sunnudagur, 17. júní 2007

rugl

Ruglfallegt í Skutulsfirði í dag. Hreint og tært, bæði himinn og haf. Hægt að spegla sig í pollinum bara, enda gera fjöllin það með glans. Svona morgnar gera alveg nunnulífið. Æskuástin mín vakir í næsta firði. Verst að hann skuli vera greyptur í stein. En hann er voldugur og hefur þögulan sjarma. Það má hann eiga. Ástin mín "ofnitrnuhr" (stafarugl).

Bíbí West þykir best að eyða 17. júní heima við í vöflubakstur og rjómaát með fjölskyldu (afstætt hugtak), vinum (ekki jafn afstætt hugtak) og öðrum elskum. Rjómakökukast virkar líka alltaf. Auðvitað hressilegt að hefja daginn á skrúðgöngu en hún má gjarnan vera heimatilbúin. Allt annað en messur og hátíðaræður steingervinga í jakkafötum. Litla undrið með wiskýröddina á þetta gullkorn: "Nei, þú ert í skyrtu, þú skilur þett ekki." Gleðilega fjallkonuhátíð og lengi lifi blómakjólar húrra húrra húrrah!

laugardagur, 16. júní 2007

Blómavasi

Kundera segir blóm hins illa vera blóm frelsisins. Eru blóm frelsisins þá blóm hins illa? Er hið illa illt? Hvað segir þú Baudelaire gamli saurlífsseggur? Mesta stuðið í sollinum hjá Kölska náttúrulega ha, skemmtilegast að hanga með honum sko. Alla vega (og vegir Allah eru órannsakanlegir) í skáldskapnum. Jújú, allt hefur sinn prís. Náttúrulega hægt að taka þetta í tímabilum. Nunnutímabil til dæmis (eða ekki). Mig langar í bjór. Alltaf hægt að nota tómar bjórflöskur sem blómavasa...

föstudagur, 15. júní 2007

sjúddírarírey...

Mér leiðist! Langar að hitta vinkonur mínar í suðri, vestri og austri! Drekka með þeim hvítvín og hver veit, kannski negla nokkra nagla í nýtt heimili einhvurrar þeirra. Kannski maður byrji að drekka whiskey í meira magni, fæ þá kannski wiskýrödd og get startað langþráðum trúbadorferli: "Bíbí West flytur ástríðufulla sjóaraslagara á Langa Manga í kvöld... Hún er þekkt fyrir hnyttna texta sem fjalla flestir um armasterk og varamikil karlmenni sem búa yfir visku hafs og fjalla...sjúddírarírey... Um upphitun sjá Bakraddabandið (kvennaband sem eingöngu syngur bakraddatexta þekktra dægurflugna) og Inga Jónasar, hinn tregafulli trúbador Súgandans."

upp upp mín sál...

Jæja elskurnar mínar

Bíbí ákveður sem sagt að halda vestur eftir minniháttar brotlendingar í sollinum fyrir sunnan. Aldrei að vita nema að hún nái sér á flug með uppstreyminu sem myndast við bratta kletta vestfirzkra fjalla. Bezt að æfa sig fram á haustið og láta svo reyna á listina með öllum hinum nýburum svartfuglanna. Bíbí kaupir kagga og kemur sér fyrir í nornakofa langt inni í skógivöxnum dal. Eins og sannri norn sæmir skreytir hún kofann, að vísu ekki með sælgæti heldur gerviblómum í öllum regnbogans litum. Í kofanum hefur hún bezta kompaní í heimi: litla veru með wiskýrödd sem kann að gera allt úr engu!