mánudagur, 23. júlí 2007

bakpoki

Einhvern vegin var orðið of þröngt í höllinni hvítu og þungbúin ský lúrðu við sjóndeildarhringinn. Þrúgandi. Sturtaði úr gömlum bakpoka. Á grænum svefnsófa lágu vetrarföt á víð og dreif: blá lambúshetta, vettlingar með gati, nokkur sjöl og treflar. Sópaði þessu út í horn og fyllti bakpokann af því allra nauðsynlegasta: aukapari af gallabuxum, barcelónsku bíkiníi, hvítvínsflösku og glænýju og rándýru undrakremi. Við, akkúrat þessi bakpoki og ég, höfum brallað margt saman. Ferðalög til Hvítarússlands og Nepals að ógleymdri Hornstrandagöngu. "Ekki bonda of mikið við hluti" segir vinkonan. En þetta gerðist bara óvart. Hann var um kyrrt, "stóð alltaf við bakið á mér" á meðan aðrir komu og fóru, á meðan ég kom og fór. Og hér erum við nú, tilbúin í slaginn. Til Stykkishólms skal haldið!
Þegar við lendum þar, rykug upp fyrir haus, ég og Ventoinn minn kæri vin, fáum við rauðvín, osta og óborganlegt kompaní konu með postulínshúð og undurfallegar freknur. Í íbúðinni hennar er allt nýtt og í fyrsta skipti á ævinni finnst mér ég geta vanist svoleiðis lúxus. Ó jeah! Glæný blöndunartæki, glænýtt parkett og glæný plastlykt allt umvefjandi, nú í bland við ilminn af Capri auðvitað... Hún er svo grönn og limalöng þessi kona að Capri fer fáum jafn vel. Og útsýnið, ekkert málverk toppar þetta look, svona líka fagmannlega rammað inn.

Engin ummæli: