laugardagur, 14. júlí 2007

kollgáta

"Hvert ertu að fara með mig?" spyr litla undrið vafið inn í stórt bleikt ullarsjal sem ég keypti á tíu krónur í Rauðakrossbúð, ástfangin í Kaupmannahöfn. "Inn í Skóg." svara ég og loka bílhurðinni. Hún er enn í svefnrofanum og sofnar líklegast aftur. "Skógurinn" er Tunguskógur, fallegur staður þar sem dóttir mín fær Rousseauískt náttúruuppeldi á meðan ég stunda þjónustustörf á Hótel Ísafirði. Mér finnst erfitt að kveðja hana á morgnanna en sú togstreita er líklega hluti af hinu eilífa samviskubiti sem fylgir því að vera foreldri. Maður getur alltaf gert betur...
Eftir að eldheitir sólargeislar hafa teygt anga sína inn um gluggann og vakið mig - á undan klukkunni sem er stillt á 6:45 - eyði ég smá tíma í að gera ekki neitt, liggja og horfa á loftið í herberginu eða þá horfi ég út um gluggann á himininn og fjöllin í kring. Þetta sumar, með öllum sínum þurrki og sólskini er á góðri leið með að breyta ákveðnum hluta Vestfjarða, í það minnsta tilteknum fjöllum, í stað sem minnir á Afganistan eða aðra eyðimörk. Ekki það að ég hafi nokkurn tíman komið á slíkan stað en hitinn og þögnin leggjast á eitt um að skapa þessa tilfinningu. Í svona tíð sést hvað Þorfinnur er æfagamall, hann er eins og frumbyggi á sléttum Ástralíu sem horfir með skorpna húð til sólar, gamall, vitur og æðrulaus. Mig langar til að spyrja hann spjörunum úr, um allt sem leitar á sinni mitt þessa dagana. Auðvitað verður fátt um svör, ekkert endurkast. Gleypir bara spurninguna, sýgur hana í sig í gegnum klettaskorurnar. "Þú hefur lykilinn" sagði ein mér kær í gær. Ætli hún hafi ekki átt kollgátuna.

Engin ummæli: