föstudagur, 28. september 2007

sullskor

Helvíti gaman að smala. Hlaupa upp og niður brattann undir leiðsögn blótandi bænda. Silhuetta af fallegum frænda sem stendur uppi í klettum sperrtur eins og rómversk stytta. Rolluhópur við það að sleppa handan við urð en þá birtist veðurbarið öskur í rauðum jakka og reddar málunum. Ferðumst í flokk inn með firðinum, dalir eru tæmdir og smám saman fjölgar í hjörðinni. Sumarjarm er ein og ein kind. Haustjarm er hærra, þéttara og iljar í sálinni. Það hefur fennt og kuldinn bítur en hamagangurinn hitar. Minning um hó og klapp býr í kroppnum og eftir smá upprifjun hrífst ég með og öskra úr iðrum eins og rauðnefjaður og heiðskýr bóndi. Missi annan skóinn í á, hleyp á einum sokk og tekst að veiða hann upp . Hægri fóturinn ískaldur en varmasokkar bjarga. Smala restina í sullskó, með sólheimaglott.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Unaðslegur texti, yndið mitt. Dillaði mér í takt á meðan ég las hann og aftur. Knús

Bíbí West sagði...

þú ert yndi (:
Rokkaðu nú fyrir mig í NY!