föstudagur, 26. október 2007

blussa jakki sokkur ...

Inn um lúguna læðist harðspjalda barnabók með blárri kápu. Innihaldið er notalega mjúkt: "Háttatíminn minn". Best að setja upp furðusvip. Skemmtilegra að vita sem minnst um uppruna óvæntra glaðninga. Langar til að taka stökkið út í nóttina og yfir tjörnina, fljúga yfir þessar greinar, fram hjá þessu stóra tungli. Með bókina undir vinstri hendi. Enda í gráu skeljasandshúsi með útsýni yfir vinnuvélar og sjó. Hjúfra mig á milli tveggja líkama, misstórra, undir dúnsæng sem yljar. Lesa hátt og snjallt:

Háttatími, þá háttum við
hengjum upp dagsins klæði vel
Setjum til hliðar sokka og skó
sátt og glatt er vort hugarþel.

Síðan á að benda:

blússa
jakki
sokkur
skór
kjóll
sokkur

Í staðinn hjúfrar sig að mér bröndóttur köttur með græna ól, undir gulum hálfmána úr plasti.
Það veit sjaldnast á gott að dreyma tennur, hvað þá tannmissi. Tennur eru rætur.
Hvað eru nokkrar dauðar rottur á milli þilja?

blússa
jakki
sokkur
kjóll
tönn
veiðihár
skott
ól
kló
...

Engin ummæli: