mánudagur, 29. október 2007
mjaaauuu!!
Kötturinn minn er vitlaus. Hann heldur að hann sé læstur úti á þaki, fattar ekki opinn glugga sem stendur honum til boða. En ég tala ekki kisumál og þarf því að umbera mjálmið þangað til hann uppgötvar sjálfur að hann kemst inn um þennan galopna glugga. Á meðan skelli ég gluggunum hér á neðri hæðinni í lás, til að hlífa eyrum og viðkvæmum taugum konu á röngum tíma mánaðarins. Hækka í útvarpinu, á auðveldara með að umbera notalegt Víðsjármalið í Eiríki. Þessi rangi tími vill reyndar oft leiða af sér ágætis aðgerðir. Til dæmis smásmugulega vandvirkni við ítarleg þrif á ruslaskápum með fúkkalykt og lekum pípum. Smávaxna undraveran varð innblásin af mömmu sinni. "Mig langar að þvo tunguna mína" sagði hún eftir að hafa heillast af og bitið í fagurrauðan chilli og þrjú glös af Ribena höfðu ekki gert trikkið. Já, þannig líður mér líka þegar ég stend sjálfa mig að of stórum skammti af kvarti og kveini. Hvernig var þetta annars með sápuþvott og barnatungur í gamla daga? Æi, ekki nema von að aumingjans kötturinn væli í þessum kulda. Kynni ég katttamál Gosi minn þá myndi ég segja þér að snjókornin græða (Eiríkur er á flugi í dag og kallar þau "blóm") og að þér standa allir vegir opnir, kannski ertu ekki vitlaus, þú þarft bara að átta þig ljúfurinn. Velkominn vetur.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli