mánudagur, 25. júní 2007

Wroooommm!

Í gær fór héðan flugvél. Wrooommmmmm.....! Í henni voru lítil yndisvera með ráma yndisrödd, amma hennar með brotna framtönn, strákur með svarta tösku og heil hersing af hljóðfæraleikurum. Líka kontrabassi og skrýtið hljóðfæri frá Bali. Allt í einu voru allir farnir. En sum þeirra koma aftur - þau sem eiga hér heima. Það er nú gott.
Flugvélaferðir eru magnaðar. Fylgja þeim sviptingar. Dramatískt að horfa á eftir þessu hvíta risafygli, takast á loft og fjarlægjast þangað til það verður að svörtum pínupunkti á hvítum himni. Standa sjálf eftir í fjallaþögn og kveðja ein í kyrrðinni. Stefna heimleiðis - eða eitthvert allt annað - til að fylla upp í tómið.
Koma heim og búast við að geta vafið um sig teppi og endurfæðst en hitta bara úrilla frænku sem segir: "gott að þú ert komin til að hreinsa til". Nú, þá bara hreinsar maður til, vaskar upp og skúrar gólf, gæðir sér svo á gómsætum grísamat sem maður úrillu frænkunnar hefur eldað. Sofna yfir fréttunum, labba í svefnrofi upp gamla bratta stigann og sofa þungt í afarúmi.
Vakna endurnærð í ærandi sumarnótt í fallegasta firðinum. Hringja í bestu vinkonuna og hlæja að myglusveppum og dansandi unglömbum. Það er góður endir á skrýtnum degi.

Engin ummæli: