sunnudagur, 26. ágúst 2007

næstumþvíhaust...

Í nokkur ár, nánar tiltekið fimm, var ég reglulega grasekkja. En ekki meir. Nú eyði ég kvöldunum í spjall við afa, til dæmis um slátturvélar.

Borðið er kringlótt og rjómalitur plastdúkurinn er þakinn kaffislettum. Sumar eru nokkurra daga gamlar. Á meðan við röbbum sópar afi reglulega sandkökumylsnu af borðinu. Hann ræskir sig, skellir saman fölskunum og þurrkar sér um munninn með handabakinu. Ég er byrjuð að reykja ótæpilega og skilst að það sé bara nokkuð algengt í hvers konar fæðingarhríðum, svona til að róa taugarnar. Afi hefur áhyggjur af túnunum við bæinn, sem í fyrsta skipti í meira en öld eru óslegin. Mér finnst þau falleg, svona rauð í haustinu, sérstaklega þegar blæs. En hann er þrjóskur og vill slá, búinn að fá nágranann til að festa slátturvélina við traktorinn. Þegar spjallinu sleppir fer ég út og sting mér á kaf í grashafið. Bleikt teppi sem bylgjast og sefar þannig söknuðinn eftir hlutanum sem vantar, litlu Funu minni. Afi ræsir dráttarvélina og lullar í hringi á túninu. Á vélarhlífinni stendur "Massey Ferguson". Hún er rauð eins og stráin og höktandi vélarhljóð vaggar mér í svefn.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já elskan mín! Mikið er gaman að lesa sveitastemningarnar þínar. Tregafullur galsinn plokkar mína fínustu strengi. Ástarkveðja, Eva

Bíbí West sagði...

Júbíhh! Þú ert Caprímærin mín eina og sanna. "Já thér eruð svo sannarlega yndislegar úngfrú Caprí og mikið hlökkum vér til að njóta návista yðar á ný!"