laugardagur, 25. ágúst 2007

smáskitterí...

"Sko, lögreglan hefur öðrum og stærri hnöppum að hneppa, hefur ekki tíma fyrir svona smáskitterí...." Umræðuefnið (einræðuefnið er reyndar nærri lagi) er stóraukin útgerð vasaþjófa í Evrópu. Sjálfur segist hann þekkja sérstaklega vel til þessara mála í Róm. Hann pýrir augun þegar hann miðar og reynir að stinga pennanum í hvítan og glansandi plasthólk sem á stendur Visa Ísland. Honum gengur illa að hitta í holuna og penninn skilur eftir sig blekrákir þegar hann rennur niður utanverðan hólkinn, aftur og aftur. Svartir augasteinarnir eru rammaðir inn í litla kringlótta gleraugnaumgjörð og stemma á undarlegan hátt við bóluörin á kinnunum. Í glasinu er appelsínusafi sem fyrir stundu var hluti af morgunverðarbakka elskunnar hans en er núna orðin að hans eigin vodkablöndu.

Engin ummæli: