miðvikudagur, 29. ágúst 2007

hvítur kjóll


Í dag dekka skýin himininn og meira til. Fjöllin fín í hvítum kjól og faldurinn teygir sig alla leið niður í fjöru. Þenur sig af þrá í þörunga og salt. Rigning hér og rigning þar. Skyldi rigna allsstaðar? Sensúalið býr í hlýju stórborgarregni. Sossum hægt að vera stórborgari í sveit, það er ekki það.

þriðjudagur, 28. ágúst 2007

so the silence between the beats can be a little scary

því þar býr thrillið...

það er fix dagsins

mánudagur, 27. ágúst 2007

snerting

Krumminn á skjánum
komdu inn
og kroppaðu dáldið í naflann minn
Krumminn á skjánum
nú kem ég út
skál og við drekkum af stút!
Krumminn á skjánum
þú ert vinur minn
þú ert ekki eins og hann þarna hinn
Krumminn á skjánum
er þetta er búið spil?
"Nei, því þú ert ánetjuð skotta mín, og færð sæluhroll
finnirðu dálítið til..."

sunnudagur, 26. ágúst 2007

næstumþvíhaust...

Í nokkur ár, nánar tiltekið fimm, var ég reglulega grasekkja. En ekki meir. Nú eyði ég kvöldunum í spjall við afa, til dæmis um slátturvélar.

Borðið er kringlótt og rjómalitur plastdúkurinn er þakinn kaffislettum. Sumar eru nokkurra daga gamlar. Á meðan við röbbum sópar afi reglulega sandkökumylsnu af borðinu. Hann ræskir sig, skellir saman fölskunum og þurrkar sér um munninn með handabakinu. Ég er byrjuð að reykja ótæpilega og skilst að það sé bara nokkuð algengt í hvers konar fæðingarhríðum, svona til að róa taugarnar. Afi hefur áhyggjur af túnunum við bæinn, sem í fyrsta skipti í meira en öld eru óslegin. Mér finnst þau falleg, svona rauð í haustinu, sérstaklega þegar blæs. En hann er þrjóskur og vill slá, búinn að fá nágranann til að festa slátturvélina við traktorinn. Þegar spjallinu sleppir fer ég út og sting mér á kaf í grashafið. Bleikt teppi sem bylgjast og sefar þannig söknuðinn eftir hlutanum sem vantar, litlu Funu minni. Afi ræsir dráttarvélina og lullar í hringi á túninu. Á vélarhlífinni stendur "Massey Ferguson". Hún er rauð eins og stráin og höktandi vélarhljóð vaggar mér í svefn.

laugardagur, 25. ágúst 2007

Lobbývaktirnar eru langar og mig langar út - í berjamó. Lobbýdama með blóðuga fingur og berjablátt bros. En kokkarnir bjóða upp á annars konar þrúgur og ég fæ hvítvín með matnum, namminamm. Tyggjó drepur ilminn og nú er ég lobbýdama með extracolgatebros. Jammjamm

smáskitterí...

"Sko, lögreglan hefur öðrum og stærri hnöppum að hneppa, hefur ekki tíma fyrir svona smáskitterí...." Umræðuefnið (einræðuefnið er reyndar nærri lagi) er stóraukin útgerð vasaþjófa í Evrópu. Sjálfur segist hann þekkja sérstaklega vel til þessara mála í Róm. Hann pýrir augun þegar hann miðar og reynir að stinga pennanum í hvítan og glansandi plasthólk sem á stendur Visa Ísland. Honum gengur illa að hitta í holuna og penninn skilur eftir sig blekrákir þegar hann rennur niður utanverðan hólkinn, aftur og aftur. Svartir augasteinarnir eru rammaðir inn í litla kringlótta gleraugnaumgjörð og stemma á undarlegan hátt við bóluörin á kinnunum. Í glasinu er appelsínusafi sem fyrir stundu var hluti af morgunverðarbakka elskunnar hans en er núna orðin að hans eigin vodkablöndu.

föstudagur, 24. ágúst 2007

fimmtudagur, 23. ágúst 2007

plástur


"Ég er ekkert orðin ruglaður!" segir hann pirraður. "Nei, ég var ekkert að segja það afi minn." Elsku afi minn. Já, við erum góðir vinir við afi, alveg hreint. Nú erum við tvö í höllinni. Og höfum það svo gott saman. Mín svona líka róleg í hjartanu og hann bara rólegur líka, þrjóskur - en rólegur þegar honum líður vel. Nýklipptur og fínn, japplandi á heimagerðri rúllupylsu. "Tja, þetta er nú eiginlega hangikjöt" segir hann og sker í bleika pylsuna með best brýnda hnífnum í fjórðungnum. Ekki furða að ég hafi verið sískerandi mig í fingurna í allt sumar, plástur á öðrum hverjum fingri. Brosandi lobbýdama með blóðuga fingur.

fimmtudagur, 16. ágúst 2007

nagli

Naglalakk og Nietcz....
æi bíðiði aðeins,
hvernig er þetta aftur skrifað.....
jú! Nietzsche.
Naglinn sá.
Handan góðs og ills á elliheimilinu.

þriðjudagur, 14. ágúst 2007

hestur

Klæjar af óþoli - fyrir núinu. Vil annað, á tímaflakk. Til dæmis á akkúrat hæfilega ferð um alíslenskan skeiðvöll, á fullkomnu og alíslensku, lýtalausu tölti í kyrfilega prjónaðri lopapeysu og flaxandi ljósu hári. Rugl. Að standa ekki í fæturna og blogga brokkandi um óþolið sem snýr fyrst og fremst að manni sjálfum.

Eilíft augnablik á Norðurströnd Frakklands fyrir sex árum, íhaaahhh!:

laugardagur, 11. ágúst 2007

refur

Fallöxin er óspör á sjálfa sig þessa dagana. Lætur bara vaða hægri vinstri. Já,já. En dauðarýmið er víst sköpunarrýmið. Það segir alla vega Blanchot, gamli refur.

föstudagur, 10. ágúst 2007

Undir regnboga

Hann var heill þessi margliti bogi. Náði alla leið frá gamla góða Þorfinni og yfir í Hvilftina. Teygði sig hátt hátt upp í himininn. Við stóðum á Bakkanum með bleikt fjarðarmynnið í bakið. Göptum bara og dæstum. Bíbí, litla wiskýveran, besta vinkonan úr firðinum og falleg Bakkamamma, bein í baki, með ljósrauðar krullur. Hann faðmaði okkur fjörðurinn. "Þú ert ein af oss" sagði húsfreyjan þegar við föðumuðumst allar fjórar í kveðjuskyni. Svo gott að heyra það í firðinum sínum.

miðvikudagur, 8. ágúst 2007

surrender

mildin öll

Rigningin er góð og ágústnóttin líka. Mildandi þetta myrkur. Dempa peinið, droparnir. Fallegasta augnablik dagsins er svefnrofi litlu wiskýverunnar. "Mamma mín" hvíslar hún og grúfir sig í hálsakot. Þá er gott að vera til. Mæta í vinnu með ró í sálinni og spjalla við brosandi túrhesta og Eyju nokkra úr þorpinu sínu. Rifja upp og gera upp. Lobbýið getur beðið.

mánudagur, 6. ágúst 2007

under the gun


"Scorpios are so under the gun it is not funny
but if they keep it professional
they should be alright"



Já, hann Lutin hittir nú stundum naglann á höfuðið. Tek hann á orðinu.

sunnudagur, 5. ágúst 2007

......

Lamb í ofni og Anthony niðursoðin í apparatinu. Bara kósý á ísfirska elliheimilinu. Besta vinkonan og litlu skotturnar lesa sögu um litla rauða (og ákaflega klóka!) hænu. Hún gabbaði sko bæði rebba og mömmu hans! Og jeah, Kilye niðursoðin líka og þær bresta í dans. "Baby baby baby, you know you like it like this.... I'm spinning around.... moove out of my way....... I know you like it like this." Snúsnú, hoppihopp og júbbíjeyh!

Vissir þú annars Þorfinnur darling að það er til lag sem heitir "Balcony smoker"?! Hún Jenny Wilson sko, hefur örugglega sérstaklega samið það fyrir okkur. "Inhale......... Exhale......" (algengur frasi í leiklistarskólum en getur átt við víðar.....).

api

Í allt sumar hefur hún fylgt mér, þessi kona með apann á öxlinni og fjólubláan borða í kolsvörtu hárinu. Hún er í hvítri blússu, með samvaxnar augabrúnir og ég trúi henni fyrir öllu. Ég segi henni frá stund á hjara veraldar, undir svörtum hömrum við babybláan sjó, stútfullan af möguleikum. Eitt alsherjar draumarými. En í staðin fyrir að steypa okkur fram af brúninni tökum við á okkur rögg og höldum heim. Sunnudagssteikin bíður ekki. Fyrr en varir er böðullinn mættur og eldtungurnar standa úr höfðinu á honum. Um leið og hann strýkur okkur blíðlega um vangann, fer hann með aðvörunarorð og náðarmeðalið kemur í formi fallaxar. Snöggt skal það vera, og beitt. "Þetta er bara draumur og verkin tala." Bleikur draumur verður að hálshöggnum hænubúk sem hleypur um garðinn af taugatitringi einum saman. Allt í tómu tjóni bara. Smám saman róast búkurinn og ölduna lægir. Við öndum í takt, ég og Sjórinn, minn gamli vin. Þannig er nú það. Næ landi og geng upp hlíðina. Fer inn í húsið og drekk kaffi með frænku. Hún er glasi og það er gott að tala við hana. Við skilijum hver aðra við tvær.

Ég fann sem sagt hausinn, hann er enn þá á sínum stað, í fullu og beinu sambandi við "göttið" - alveg eins og það á að vera. Samvaxin eru þau herra Búkur og Frú Haus. Simpansinn skríkir, úúhahahhahhaaahahahahaaaa!

fimmtudagur, 2. ágúst 2007

konungur

Í fjörðinn er kominn aldraður konungur. Hann er hvíthærður og lúinn, með fallegt bros. Og Bíbí breytist í litla stelpu sem finnst svo gott að faðma afa sinn. Knúsar hann og kyssir í bak og fyrir. Afi gamli röltir um húsið og grúskar gleyminn í hlutum og minningum. Fór beina leið í kjallarann og sótti innmat í frysti. "Það verður að sjá fólkinu fyrir mat." Sótti líka frosinn rabbabara frá því í fyrra og kokkaði upp graut en , to, tre. Óþarfi að týna ferskan rabbabara ef maður á tilbúinn í frysti... Var alveg hissa á afastelpunni að hafa ekki borðað meira úr kistunni. Kemur ekki til greina að kaupa kartöflur og helgispjöll að henda. "Hvar eru álftirnar?" og "Hér eru fáar sem engar kindur á beit!". Þannig er hann afi minn.


Nú er annað að vera til. Einmanaleg sumarkvöld okkar Þorfinns, Budwar og Capri eru á enda. Húsið fylla nú tveir tíu ára strákar, frænka sem gott er að tala við og auðvitað Bíbí og afi. Á morgun kemur svo allra besta vinkonan með Þuluskott, að ógleymdu fallegasta fyrirbæri veraldar, Funubrosinu mínu einasta!!!!!