laugardagur, 29. september 2007

blessað duftið

B: öskustóin er ekkert slæmur staður að vera á. Maður verður bara að baða sig upp úr öskunni sko.
F: ég á engan matarsóda.
B: Turninn og Dauðinn sko, maður verðu svo bara að gera eins og Fönixinn. Rísa margefldur upp úr duftinu....
F: æi ég nota bara kanil. Maður er nefnilega rosalega lengi að baka svona gulrótarköku.
F.U.: Mamma, mig langar í bleeeeeiiika blöðru.

föstudagur, 28. september 2007

sullskor

Helvíti gaman að smala. Hlaupa upp og niður brattann undir leiðsögn blótandi bænda. Silhuetta af fallegum frænda sem stendur uppi í klettum sperrtur eins og rómversk stytta. Rolluhópur við það að sleppa handan við urð en þá birtist veðurbarið öskur í rauðum jakka og reddar málunum. Ferðumst í flokk inn með firðinum, dalir eru tæmdir og smám saman fjölgar í hjörðinni. Sumarjarm er ein og ein kind. Haustjarm er hærra, þéttara og iljar í sálinni. Það hefur fennt og kuldinn bítur en hamagangurinn hitar. Minning um hó og klapp býr í kroppnum og eftir smá upprifjun hrífst ég með og öskra úr iðrum eins og rauðnefjaður og heiðskýr bóndi. Missi annan skóinn í á, hleyp á einum sokk og tekst að veiða hann upp . Hægri fóturinn ískaldur en varmasokkar bjarga. Smala restina í sullskó, með sólheimaglott.

fimmtudagur, 27. september 2007

blessaðar...


Déskotans blessaðar ræturnar.
Get bara ekki slitið mig frá þessum stað.
Og svo skammar maður aðra fyrir að geta ekki klippt á naflastrenginn. Flísin og bjálkinn og allt það...

mánudagur, 24. september 2007

Jájá

Afi: Heyrðu. Hvernig á að elda þetta þarna... sem er svo mikið af í skápnum undir eldavélinni?
B: Ha? Meinarðu pastað?
Afi: Já, þessar makkarónur þarna.
B: Við getum til dæmis búið til sósu úr tómötum og basil og hvítlauk og ....
Afi: Jájá, heyrðu, vilt þú ekki bara elda eithvað úr þessu?
B: Jú, ég get gert það. Til dæmis í hádeginu á morgun.
Afi: Já en ekki í kvöldmatinn því þá ætla ég að elda fiskibollur úr dós og gera karrýsósu með. Mér finnst það svo gott.
Frændi: Já, Ora fiskibollur eru bestu fiskibollur í heimi.
Afi: Jájá, þú finnur út úr þessu með tómasósuna og makkarónurnar.

miðvikudagur, 19. september 2007

borða mold

Er að huxa um að hverfa inn í skáldsögu eftir Kristínu Ómars og leggjst undir runna og borðað mold á meðan stormurinn gengur yfir.

mold

Og svo gróðursetjum við tærnar og förum í sólbað með bringunni. Skemmtilegt myndmálið hjá kramhússnótum.

þriðjudagur, 18. september 2007

sko ljosin

Algjör útlönd þetta kramhús í porti. Gott að fara þangað, kvölds og morgna og um miðjan dag. Nota kroppinn. Næra kroppinn. Ekki sitja heima og sakna. Sat í bíl í rigningu og sá fallegt skáld með stóra loðhúfu, með síða ljósa hárið sitt. Kom úr undirgöngum í rauðum skóm þessi elska. Við brunuðum áfram en hún hinkraði eftir ljósaskiptum. Borðaði nýveidda bleikju í raðhúsi. Svo fersk að hún bragðaðist eins og rigningin namminamm. Gott að fá skutl til baka og knús í bíl - í rigningu. Já, maður gerir bara allt í rigningu þessa dagana.

mánudagur, 17. september 2007

sunnudagur, 16. september 2007

leave the table

já, og svo er það Nina:

"You´ve got to learn..."

You´ve got to learn to show a happy face
jamm og to leave the table
show everybody that you can leave
without saying a word
og svo framvegis...

Gott að endurprógramera sig við undirleik sefandi tóna.

á Capri pakkanum stendur "Reykingar eru mjög ávanabindandi, byrjaðu ekki að reykja." Jamm, gott að einhver reynir að hafa vit fyrir manni. Jújú, víman býr víða. Verst að það skuli vera svona margt (og margir) krassandi og ávanbindani í þessum heimi . Annars ku ein víman leysa aðra af hólmi - og margur verri en Capri, svo mikið veit ég. Og þá er nú ljúft að þekkja Ninu.

jasminur

Bíbi mælir með því að fylgjast með jasmínublómum sem opna sig hægt í bolla af sjóðandi heitu vatni.

föstudagur, 14. september 2007

fimmtudagur, 13. september 2007

við grugguga tjörn

but when you´re actually living it
it´s no picnic
unless you enjoy picnics under a truck

Þetta sagði Lúlli í gær. Já, ansans vandræði að vera rekandi sig uppundir í svona líka fínni lautarferð. Ég geri ráð fyrir að kvöldið verði notalega exótískt. Við hlaupum í rokinu og laufin segja hviss hviss. Forðum okkur inn í gamalt timburhús við grugguga tjörn. Nokkur skraufþurr og sniðug lauf lauma sér með okkur inn um dyrnar. Hviss hviss. Salurinn er grænn og listarnir gylltir. Hér er hátt til lofts. Hlustum á vitra konu frá Kínalandi segja frá. Hvílum í vitund hvers annars. Mikið sem þá verður gott að hlýja sér.

miðvikudagur, 12. september 2007

Knutur

Ógleði er svarthol. Í hnésíðu pilsi með hnút í hári. En þú ert ekki sem verst góða mín, hreint ekki sem verst. Þetta kemur. Steypiregn. Helliregn. Best að hætta á kvíðastillandi og byrja að reykja. Púff púff. Áhrifin eru góð og reykurinn er róandi. Sígarettur eru höndlanlegar. Ekki litlar hvítar töflur i dós sem eiga að laga. En þær losa ekki, þær deyfa. "Einkennin" eins og doktorinn orðar það. Ljósarkrónurnar eru hvít blóm og þær stækka herbergin. Á bleikum miða stendur: "elskan, ég vil ekki hafa þetta svona." En þetta er svona. Engin vill "hafa þetta svona". Þetta er svona og þú ert ein. Ein í svörtu pilsi með hnút í hári. En þú ert ekki sem verst. Mundu það.

þriðjudagur, 11. september 2007

bummbummbumm...

Ellefti september. Léttir. Veit ekki hvers vegna. Nýtt upphaf. Loksins. Rifja upp ellefta september 2001. Á leiðinni heim úr rómansreisu um grísku eyjarnar og sem við sigldum inn í Aþenu blöstu við hrynjandi tvíburar á ótal skjáum, tvíhyggjan að falli komin búmmbúmmbúmm...

Undarlegt augnablik, og afdrifaríkt. Atburður svo ógnandi að bara má tala um hann á ammælisdaginn. Þess á milli látalætin ein. Sumt má ekki snerta. Því pot í kviku veldur hinu óbærilega. Önnur saga það. Hið nýja hér tengist öllu persónulegri vettvangi (ekki það að heimsmálin séu ekki persónuleg - og það mun persónulegri en okkur grunar). New eclipse segir Lutin og new eclipse segir líkaminn. Hinn dyntótti konukroppur, óumflýjanleg áminning, sæt og súr.

Ellefu er líka betri tala en tíu. Ekki núllpúnktur, ekki sjálfhelda, ekki stöðnun, heldur tvöfalt upphaf.

mánudagur, 10. september 2007

Sumt i þessum heimi

Þann 23. október 1881 ritaði Rannveig nokkur Ólafsdóttir Briem Eggerti bróður sínum eftirfarandi línur, alla leiðina frá Winnipeg til Íslands:

"Góði bróðir!
Hversu undarlegt er ekki mannlegt hjarta. Hvað afl stýrir vilja vorum? Hvaða rödd er það, sem segir manni að gjöra það sem hvorki er gott eða illt eða sjálfsagt, til dæmis eins og mér að fara nú að skrifa þér?... Getur nokkuð verið réttara en rétt?... Er það skylda að fordæma það sem synd er? Er jafnsár hryggð hins kaldlynda og hins heitlynda?...Er nokkur sönnun fyrir því, að tíminn líði einlægt jafn hratt? Hvað skyldi nú vera langt þangað til ég fæ bréf frá ykkur og fréttir? Hefir baðstofan þín tekið miklum framförum í haust?... Getur samvizskan sofið?... Hvað er sérviska? Er það satt að við systkynin séum sérvitrari en fólk er upp og ofan? Er endurminning liðinnar sælu sár eða sæt? Sumt í þessum heimi er kallað guðlegt, sumt djöfullegt, en hvað er þá sannarlega mannlegt? Á hvaða aldri er maður vanalega sælastur?... Hvort er heitara glóðin eða loginn? Hvað álítur þú best við kvefi? Hafa peningar nokkurt sérlegt aðdráttarafl framar en annar auður? Langar þig ekki til að ferðast til Kínalands?...
Getur þú, elskaði góði bróðir fyrirgefið línur þessar systur þinni
Rannveigu."

laugardagur, 8. september 2007

Bo nyt

Jæja, þá er það ákveðið. Húsið skal seljast. Í fyrsta skipti á ævinni leggst það vel í mig að vera að fara á leigumarkaðinn - til lengri tíma. Fasteignakaup eru fyrir þá sem standa fjárhagslega undir því, ójá. Hvort sem það selst strax eður ei - þá skal flutt. Nýir tímar og góðir eru framundan. Hver veit nema plastparket og gráar steinflísar verði mínir bestu vinir áður en langt um líður...
Elskulegu systur, megi kvöldið og það sem eftir lifir dags verða ykkur góður biti!

fimmtudagur, 6. september 2007

one more...

Já, Bíbí er komin heim. Reykir Caprí að vanda og hlustar á Ninu og Dylan. You´ve go to learn...... og One more cup of coffee.... Tínir sólber í garðinum og horfir á teiknimyndir í góðu kompaníi. "Mamma! Má ég fá meiri kleinu?" Eldar lasagna, allir velkomnir í mat, trist að elda alltaf fyrir tvo...

mánudagur, 3. september 2007

rvk logar lika



Í Reykjavík er minna um líðandi gámaskip. En sé horft til himins má sjá fokkerana líða hjá, drekkhlaðna af farþegum og flugfreyjunum sætu.

Að hún rækti garðinn sinn
svona alla vega fyrst um sinn
dansi síðan stríðsdansinn
í glóandi bleikum logum.....

sunnudagur, 2. september 2007


afaskemma