laugardagur, 30. júní 2007

ruglirugl

Hér vil ég vera því Reykjavík er ruglandi. Þar gerir maður alls kyns vitleysur, hringir í hitt og þetta fólk og er sjálfum sér ónógur. Hér bakka fjöllin mann upp. Þau rúla. Sjórinn líka. Allt skýrt, ekki línur sem renna saman, þokukennd sýn eða hætta á að leysast upp. Fór til Reykjavíkur og fannst eins og mér hefði verið kastað út í ískalt vatn og berðist við að ná andanum. Það er gott að vera komin heim. Í kvöld ætla ég á deit í firðinum mínum. Við Þorfinnur ætlum að baða okkur saman, hann í sólinni og ég í sjónum. Hér er vel hægt að baða sig í ísaköldu án þess að örvænta. Íhaaah!
Mikið er annars gott að eiga kærasta sem er greyptur í stein...

mánudagur, 25. júní 2007

kindagötur

Að laumast út í bjarta Jónsmessunótt og hitta skemmtilega manneskju, - gúmmístígvél, klettar, sígó, bjór og jú,jú, "ólgandi hafið". Getur ekki klikkað. Kindagöturnar vísa veginn...

Wroooommm!

Í gær fór héðan flugvél. Wrooommmmmm.....! Í henni voru lítil yndisvera með ráma yndisrödd, amma hennar með brotna framtönn, strákur með svarta tösku og heil hersing af hljóðfæraleikurum. Líka kontrabassi og skrýtið hljóðfæri frá Bali. Allt í einu voru allir farnir. En sum þeirra koma aftur - þau sem eiga hér heima. Það er nú gott.
Flugvélaferðir eru magnaðar. Fylgja þeim sviptingar. Dramatískt að horfa á eftir þessu hvíta risafygli, takast á loft og fjarlægjast þangað til það verður að svörtum pínupunkti á hvítum himni. Standa sjálf eftir í fjallaþögn og kveðja ein í kyrrðinni. Stefna heimleiðis - eða eitthvert allt annað - til að fylla upp í tómið.
Koma heim og búast við að geta vafið um sig teppi og endurfæðst en hitta bara úrilla frænku sem segir: "gott að þú ert komin til að hreinsa til". Nú, þá bara hreinsar maður til, vaskar upp og skúrar gólf, gæðir sér svo á gómsætum grísamat sem maður úrillu frænkunnar hefur eldað. Sofna yfir fréttunum, labba í svefnrofi upp gamla bratta stigann og sofa þungt í afarúmi.
Vakna endurnærð í ærandi sumarnótt í fallegasta firðinum. Hringja í bestu vinkonuna og hlæja að myglusveppum og dansandi unglömbum. Það er góður endir á skrýtnum degi.
Má bjóða þér sól?
-Já takk!
Komdu þá hingað í Vestrið til mín. Alltaf sól! -nú, eða logn og ylur.

þriðjudagur, 19. júní 2007

Af himnum ofan

Stundum falla ljósálfar af himnum ofan. Eins og til dæmis í dag; eitt stykki Jósuljós! Takk fyrir mig. Og á föstudaginn kemur önnur dís. Hún mun líka koma svífandi niður úr skýjunum.

montprik

Þetta reddast allt einhvern vegin. Sérstaklega ef maður gerir það sem maður getur. Hvers vegna æsir maður sig þegar maður veit hversu lítið það hefur upp á sig? Best að taka bara æðruleysispakkann á þetta. Gera það sem maður getur og treysta síðan hinu/m. Þannig virðist dagurinn í dag fela í sér lausnir á flestum vandamálum gærdagsins, leigjendur fara...og koma, mæðgur karpa...og sættast. Peningar....hmm já, hvað með þá...?

Athugasemd um líf og tilveru: Sumir menn ganga þannig að bringan kemur fyrst, stendur beint út í loftið. Þeir eru ekki mínir menn enda iðulega smáir að gerð. Eru þó eflaust ágætustu skinn inn við beinið... "Montprik" er sossum líka skemmtilegt orð.

mánudagur, 18. júní 2007

Annars er hún ósköp alltumvefjandi og mildandi vesfirska fjarðaþokan...
Æi, sumir dagar...
tannlæknar sem grufla í tannholdi og koma við fínustu taugar, leigjendur sem láta sig hverfa og mæðgur sem verða ósáttar - Rokið í burtu. Ekki að það sé svosem í fyrsta skiptið..... Allir að hugsa fyrst og fremst um sjálfan sig. Auðvitað, aaarghh!!! En lítil stúlkusnót eru best í heimi og knúsar mömmu sína.
Ég sakna vinkvenna minna!

sunnudagur, 17. júní 2007

rugl

Ruglfallegt í Skutulsfirði í dag. Hreint og tært, bæði himinn og haf. Hægt að spegla sig í pollinum bara, enda gera fjöllin það með glans. Svona morgnar gera alveg nunnulífið. Æskuástin mín vakir í næsta firði. Verst að hann skuli vera greyptur í stein. En hann er voldugur og hefur þögulan sjarma. Það má hann eiga. Ástin mín "ofnitrnuhr" (stafarugl).

Bíbí West þykir best að eyða 17. júní heima við í vöflubakstur og rjómaát með fjölskyldu (afstætt hugtak), vinum (ekki jafn afstætt hugtak) og öðrum elskum. Rjómakökukast virkar líka alltaf. Auðvitað hressilegt að hefja daginn á skrúðgöngu en hún má gjarnan vera heimatilbúin. Allt annað en messur og hátíðaræður steingervinga í jakkafötum. Litla undrið með wiskýröddina á þetta gullkorn: "Nei, þú ert í skyrtu, þú skilur þett ekki." Gleðilega fjallkonuhátíð og lengi lifi blómakjólar húrra húrra húrrah!

laugardagur, 16. júní 2007

Blómavasi

Kundera segir blóm hins illa vera blóm frelsisins. Eru blóm frelsisins þá blóm hins illa? Er hið illa illt? Hvað segir þú Baudelaire gamli saurlífsseggur? Mesta stuðið í sollinum hjá Kölska náttúrulega ha, skemmtilegast að hanga með honum sko. Alla vega (og vegir Allah eru órannsakanlegir) í skáldskapnum. Jújú, allt hefur sinn prís. Náttúrulega hægt að taka þetta í tímabilum. Nunnutímabil til dæmis (eða ekki). Mig langar í bjór. Alltaf hægt að nota tómar bjórflöskur sem blómavasa...

föstudagur, 15. júní 2007

sjúddírarírey...

Mér leiðist! Langar að hitta vinkonur mínar í suðri, vestri og austri! Drekka með þeim hvítvín og hver veit, kannski negla nokkra nagla í nýtt heimili einhvurrar þeirra. Kannski maður byrji að drekka whiskey í meira magni, fæ þá kannski wiskýrödd og get startað langþráðum trúbadorferli: "Bíbí West flytur ástríðufulla sjóaraslagara á Langa Manga í kvöld... Hún er þekkt fyrir hnyttna texta sem fjalla flestir um armasterk og varamikil karlmenni sem búa yfir visku hafs og fjalla...sjúddírarírey... Um upphitun sjá Bakraddabandið (kvennaband sem eingöngu syngur bakraddatexta þekktra dægurflugna) og Inga Jónasar, hinn tregafulli trúbador Súgandans."

upp upp mín sál...

Jæja elskurnar mínar

Bíbí ákveður sem sagt að halda vestur eftir minniháttar brotlendingar í sollinum fyrir sunnan. Aldrei að vita nema að hún nái sér á flug með uppstreyminu sem myndast við bratta kletta vestfirzkra fjalla. Bezt að æfa sig fram á haustið og láta svo reyna á listina með öllum hinum nýburum svartfuglanna. Bíbí kaupir kagga og kemur sér fyrir í nornakofa langt inni í skógivöxnum dal. Eins og sannri norn sæmir skreytir hún kofann, að vísu ekki með sælgæti heldur gerviblómum í öllum regnbogans litum. Í kofanum hefur hún bezta kompaní í heimi: litla veru með wiskýrödd sem kann að gera allt úr engu!