laugardagur, 19. desember 2009

í góðu kompaníi (við Sa... og Sa...)

Í dag
ætla ég að stíga dansinn
við Jean-Paul
og fagna
því

maðurinn er tilgangslaus
ástríða.

Eric sér um undirspilið

sa og sa
og tja tja tja!

föstudagur, 18. desember 2009

Moldvarpa (grefur sér gröf?)

Ég ætla að vera moldvarpa það sem eftir er dags. Trúgjörn moldvarpa sem hefur ákveðið með sjálfri sér að súkkulaðirúsínur og jólaöl muni gera trikkið. Trúgjörn moldvarpa sem verður fyrir vonbrigðum þegar hún kemst að því að þótt súkkulaði sé sagt gott fyrir heilann þá skrifar það ekki þrjátíu síður kviss bang búmm! En dagurinn var fallegur ójá. Héluð tún og gylltar tjarnir nononoh! Eftir að hafa brýnt raustina og skellt hurð þannig að dyrabjallan datt af karminum arkaði ég niður í bæ og eftir því sem meira blasti við mér af þessum fallega degi - því meira bráði af mér. En nú er ég sumsé komin heim og hugtökin eru óskýr og klessuleg eins og leirinn hennar Franzisku þegar hún er búin að hnoða einn stóran bolta úr ótal lengjum sem upprunalega höfðu sinn litinn hver. Það er hægara gert en sagt að rekja upp akkúrat svona hnykil. Rauður er tilvistarstefnan, grænn er þekkingarfræði, gulur er fyrirbærafræði - en sama hvað ég puða í glímunni við þennan kámuga hlunk þar sem allir litir renna saman og mynda sækadelíska óreiðu. Ómægod, ég veit þú ert ekki dauður.

miðvikudagur, 16. desember 2009

Samviskubit fær fólk til að gera alls kyns vitleysu. Heiðarleiki er betri.

sunnudagur, 13. desember 2009

Fagnaðarerindi (eða- Laufabrauð með smjöri)

Saman eru laufabrauð og jólaöl hinn ágætasti árbítur, sérstaklega við undirleik kirkjuklukknanna hvers hljómur berst mér úr guðshúsinu handan við skólann. Á milli sopa spái ég í rannsóknir og skýrslur. Á meðan smjörið bráðnar á tungunni velti ég fyrir mér mistökum og líkömum og yfrlýsingum um óhreinindi. Sykursjokkið vofir yfir og ég held áfram að sötra og bryðja og kjammsa og pikka í lyklaborðið með kámugum fingrum. Síðan tek ég dramatíska pásu. Þannig varðveiti ég stóískt hugarflug fræðimannsins. Klukknahljómurinn hækkar og ég neyðist til að líta upp þegar vængjuð vera hamast hvað af tekur í brjósti mínu og brýtur sér að lokum leið út - um bringuna að ég held. Á meðan ég horfi á eftir hvítum vængjum fljúga niður Holtsgötuna, í átt að sjónum, get ég ekki annað en brosað út í annað því ég veit - að þeta blessast...

þriðjudagur, 24. nóvember 2009

jarðbundin bæn


Móðir vor
þú sem ert á jörðu
helgist þitt nafn
til komi þitt ríki
verði þinn vilji

AMEN

sunnudagur, 8. nóvember 2009


"Mamma, hvað er fundarskrá? Mamma, hvað er iðrun? Mamma, hvað er að spekúlera? Mamma er ekki ljótt að segja úti í rassgati?"
Ég bý með ketti, karlmanni, kontrabassa og ... upprennandi vísindamanni sem geymir fiskhausa í krukku og kallar nafnið á bestu vinkonu sinni upp úr svefni. "Urður! Urður!"

miðvikudagur, 4. nóvember 2009

sunnudagur, 25. október 2009

laugardagur, 24. október 2009

Hundur

Játa mig sigraða í bili en birti hér nýtt uppáhald. Svona fyrir þá sem eru ekki löngu búnir að gefast upp á mér hér.

"I was born in London, England on October 26 1958, the youngest of four and much to my parents surprise, I was born a dog. This unfortunate turn of events was soon accepted within my family and was never again mentioned in the presence of polite company."

Úr My Biography e. Ray Caesar.

sunnudagur, 18. október 2009

föstudagur, 28. ágúst 2009

mánudagur, 17. ágúst 2009

föstudagur, 24. júlí 2009

kónguló
kónguló
vísaðu mér á berjamó

ég skal gefa þér gullskó

þegar þú kemur aftur

mánudagur, 29. júní 2009

sunnudagur, 10. maí 2009

Fylli íbúðina af hvítum lökum og þakka fyrir mig. Tími ekki að hrófla við marglitum kreppappír sem þekur sófann enda sakna ég litlu handanna sem rifu hann niður og röðuðu bútunum samviskusamlega um stofuna. Opna kassa og loka kössum. Opna fleiri kassa og loka þeim jafn óðum. Líkaminn ræður ekki við skipulagða samvinnu. Heilinn gefur skipandir, hendurnar hlýða ekki og loka. Lok og stál og allt í plati. Reyni við pokana. Losa um hnúta en bind þá aftur. Uss uss segir hausin, hvursu hvursu stúlkukind? Ætlarðu að búa í pappakassa það sem eftir er ævinnar?! Hann á líka erfitt með samvinnu, hausinn. Þusar bara og skammast. Hvað gera bændur þá? Bíta gras? Man eftir grasi, man eftir söng og man líka sjóinn. Nú er hausinn allur að koma til og gott ef hann er ekki farinn að strjúka el corason um vangann. Skyldum við vera á réttir leið? Reynum aftur...

föstudagur, 10. apríl 2009

Fyrir utan gluggann minn

Veðrið er svona líka gott
og sólin er svona líka hátt á lofti
Það er vor
og auðvitað ætti ég að skella mér í göngutúr
í vorinu
í sólinni
hjá sjónum
en ég get ekki verið ein
ekki núna
í staðinn slekk ég á veðurfréttunum
og sker epli með bitlausum hníf
sneiði
hjá tilverunni fyrir utan
og bíð eftir því að eldingu slá niður
dagurinn byrjaði reyndar í sundi
i sundbol fléttuðum úr birkigreinum
sem báru óþroskaða brumknappa

(K.Ó.)
Ef þú sléttir úr dúk hermir þú eftir Guði
Ef þú leggur á borð fyrir þig eina hermir þú eftir Guði

(Kristín Ómarsdóttir)

þriðjudagur, 17. febrúar 2009

umhleypingar = zebrafjöll

sunnudagur, 8. febrúar 2009

Þetta var eftirminnilegur dráttur! gólar hann kotroskinn, maðurinn með grímuna og græna hattinn. Með skjálfta í kroppnum öllum halla ég mér fram og miða af veikum mætti á hvítt postulínið. Blóðugt slím neitar að skilja sig frá upphafsstað sínum og ég sit í sömu stellingunni, dofin og bogin yfir vaskinum eins og dýr í taumi. Að lokum kemur kona klædd hvítum buxum og blárri mussu og aumkar sér yfir mig. Hún réttir mér tissjú og færir mér vatn. Þegar hún tekur við tómu glasinu greini ég í augum hennar skilningsríkt bros.
Í garðinum er hola. Þegar ég halla mér aftur í stólnum og gjóa augunum til vinstri sé ég hann liggja í blóði sínu, í tveimur hlutum. Andvana á grænum bakka, vinur minn jaxlinn. "Svona var hann þá klofinn" huxa ég með mér, "líkur mömmu sinni, þessi elska..."
Vaknirðu með bauga undir augum eftir reykingar gærdagsins elskan mín þá er bara eitt í stöðunni. Vökvaðu morgunsárið með sítrónuvatni. Spíttu steinunum í vaskinn og myndaðu stafarugl úr orðum þeim sem standa hjarta þínu næst; ksana, skela, atha, angla ... þannig fer nýr dagur um þig mjúkum höndum, í óbeinni útsendingu frá ratsjárstöð á afskekktu fjalli. Kveiktu á sjónvarpinu og virtu fyrir þér snjókomuna á skjánum. Skelltu svo á eftir þér hurðinni þegar þú mætir alvöru veðri. Njóttu samanburðarins. Hlauptu upp hvíta hlíð mót svörtum hömrum þangað til þig verkjar í lungun. Kastaðu þér í jörðina. Snúðu þér á bakið og gleyptu himininn í einum bita.

sunnudagur, 1. febrúar 2009

Einum jaxli fátækari nartar hún í jarðaber og horfir yfir ísilagðan fjörð. Hvað skyldi gulltönn kosta margar krónur?

fimmtudagur, 22. janúar 2009

Við sitjum í lest. Svo mikið þykist hún vita, litla skottið sem er orðin svona stór. Heillra fjögurra vetra sú arna. Situr roggin og lætur móðan mása á meðan hún bryður púkahlaup. “Mamma, þú mátt fá bleikann” segir hún og brosir eins og Móðir Theresa um leið og hún réttir mér molann sem hún hefur veitt upp úr gulum pakka. Ég reyni að sannfæra hana um að farartækið sé ekki lest heldur rúta en hún tekur ekki aðra eins vitleysu í mál.
Leiðin liggur í gegnum upplýst göng og hvíta firði. Við stefnum að flugvelli sem er handan við þorpið sem er ekki mitt. Sviptivindur ku vera orsökin fyrir breyttum brottfararstað. Hina firðina og bæina í þeim þekki ég eins og lófa minn og í líkama mínum hefur með árunum myndast grafískt landakort af þeim. Hið sama á ekki við um þetta þorp. Húsin eru óreglulega dreifð um hlíðina, göturnar ekki rúðustikaðar á flatri eyri eins og heima. Ég verð áttavilt hérna, hefur aldrei tekist að henda reiður á þessum stað þótt fallegur sé. Þegar við erum á leiðinni út úr þorpinu keyrum við fram hjá kirkjugarði. Upplýstir krossarnir standa vaktina líkt og orðum prýddir riddarar. Veggurinn umhverfis garðinn er steinsteyptur, gamall og hvítur. Yfir hliðinu er bogi, alveg eins og heima, fyrir flóðið.
Ég hef ekki tekið eftir þessum garði fyrr. Auðvitað á hvert þorp sér kirkjugarð. Hvers vegna bregður mér þá svona við að sjá þennan? Ég veit að það tengist minningum sem þyrlast upp í vestfirska vetrinum og ferðalaginu sem við mæðgur erum á. Líklega hefur það fátt að gera með kirkjugarða þannig séð. En ég sakna gamla garðsins heima.

Sólin brýst fram úr skýjunum og fyllir farþegarýmið skærri birtu. Ljósi sem verður að ágengri áminningu um forgengileika. Funuskott miðar af öryggi á þar til gerðan poka og kastar upp fernu af Trópí og pakka af hlaupköllum. Stuttu seinna stöndum við á fjórum jafnfljótum í höfuðborginni. Það er stutt í byltingu.

laugardagur, 17. janúar 2009

borða hafragraut með sultu
draga krakka á sleða
hætta að hlusta á fréttir

fleiri tillögur?

fimmtudagur, 15. janúar 2009

í þessum firði
er veröldin blá
á morgnanna
og kvöldin

bleik og gul á daginn

ég veit af sólinni
handan við brattann
og þegar ég lít til hægri
blasa við svartir hamrar

fór í blokk
í brekku
drakk kaffi
og reykti á svölum
labbaði um bæinn

kom heim og kveikti á útvarpinu
þrumuræða Eiríks
í bland við Bubba
kallar fram minningar
úr litlu þorpi
1987