mánudagur, 21. apríl 2008

Kannski er ég farin að gleypa flugur
eins og afi
sem gabbaði okkur Mánasnáðann
og þóttist gleypa hrossaflugu
oooojjjj!!!
sögðum við, fimm og sjö
í sveitinni
því afar plata ekki

En sumsé,
gleðifluga
virðist hafa tekið sér bólfestu í maganum mínum
ég vaknaði brosandi í gær
og er enn brosandi
þetta er ógeðslega væmið
en
ekki gleyma því ljósin mín
að vor eru dásamlega væmin
og sérstaklega hönnuð til að vekja skilningarvitin
af löööngum dvala ...

laugardagur, 19. apríl 2008

tjullitjull


Jamm, hann mun hanga þarna svona líka rauður og fínn í skápnum fram á haust. En freistandi er hann, því skal ekki leynt. Synd að Páll skuli stiginn af rektorsstólnum. Við hefðum verið svo fín saman í sumrinu. Ekki víst að Stína hafi húmor fyrir svona vitleysu. Og svo kostaði hann bara fimmhundruðkall...

þriðjudagur, 15. apríl 2008

... og striðu

Tölvan mín er asni.
Þrjú ár liðu allt of hratt.
Og ég sem hélt að við yrðum saman að eilífu
-í blíðu og stríðu

fimmtudagur, 10. apríl 2008

Er núna hætt að vera gervi-vor?

mánudagur, 7. apríl 2008

... og dýrðin

Ég hef áhyggjur af Gosa. Velti því fyrir mér hvort hann sé sleginn hinum alræmda faraldri vorþyngsla sem alkunna eru hér við ysta mar. Ef til vill veldur þessu ójafnt hlutfall í skömtun alvaldsins á aukinni birtu og aðlögunartímanum sem er nauðsynlegur eigi maður að geta tekið á móti ljómanum og dýrðinni allri. Það kemur enginn út úr skápnum á einum degi, ekki einu sinni blessaðar kýrnar. Það sem áður var mjálm er orðið að undarlegu ískri og Gosi starir melankólskum augum út um stofugluggann. Eyminginn, ég held hann langi í flugu ...

fimmtudagur, 3. apríl 2008

Í vetur er áætlað að sýndar verði 14 sýningar í Borgarleikhúsinu. Þar af eru tvö verk eftir konur og tveimur verkum er leikstýrt af konum.
Þjóðleikhúsið stendur sig öllu betur, sýnir 18 verk, þar af sex verk eftir konur og flaggar heilum fjórum kvenleikstjórum sem stýra einni sýningu hver.
Fyrir stuttu voru sýndar í Háskólabíói nokkrar myndir undir yfirskriftinni "konur í spænskum kvikmyndum". Leikstjórarnir voru reyndar allir karlmenn.

Konur eru sérfræðingar í stóískri yfirvegun, sama hvað hver segir.

miðvikudagur, 2. apríl 2008