laugardagur, 19. desember 2009

í góðu kompaníi (við Sa... og Sa...)

Í dag
ætla ég að stíga dansinn
við Jean-Paul
og fagna
því

maðurinn er tilgangslaus
ástríða.

Eric sér um undirspilið

sa og sa
og tja tja tja!

föstudagur, 18. desember 2009

Moldvarpa (grefur sér gröf?)

Ég ætla að vera moldvarpa það sem eftir er dags. Trúgjörn moldvarpa sem hefur ákveðið með sjálfri sér að súkkulaðirúsínur og jólaöl muni gera trikkið. Trúgjörn moldvarpa sem verður fyrir vonbrigðum þegar hún kemst að því að þótt súkkulaði sé sagt gott fyrir heilann þá skrifar það ekki þrjátíu síður kviss bang búmm! En dagurinn var fallegur ójá. Héluð tún og gylltar tjarnir nononoh! Eftir að hafa brýnt raustina og skellt hurð þannig að dyrabjallan datt af karminum arkaði ég niður í bæ og eftir því sem meira blasti við mér af þessum fallega degi - því meira bráði af mér. En nú er ég sumsé komin heim og hugtökin eru óskýr og klessuleg eins og leirinn hennar Franzisku þegar hún er búin að hnoða einn stóran bolta úr ótal lengjum sem upprunalega höfðu sinn litinn hver. Það er hægara gert en sagt að rekja upp akkúrat svona hnykil. Rauður er tilvistarstefnan, grænn er þekkingarfræði, gulur er fyrirbærafræði - en sama hvað ég puða í glímunni við þennan kámuga hlunk þar sem allir litir renna saman og mynda sækadelíska óreiðu. Ómægod, ég veit þú ert ekki dauður.

miðvikudagur, 16. desember 2009

Samviskubit fær fólk til að gera alls kyns vitleysu. Heiðarleiki er betri.

sunnudagur, 13. desember 2009

Fagnaðarerindi (eða- Laufabrauð með smjöri)

Saman eru laufabrauð og jólaöl hinn ágætasti árbítur, sérstaklega við undirleik kirkjuklukknanna hvers hljómur berst mér úr guðshúsinu handan við skólann. Á milli sopa spái ég í rannsóknir og skýrslur. Á meðan smjörið bráðnar á tungunni velti ég fyrir mér mistökum og líkömum og yfrlýsingum um óhreinindi. Sykursjokkið vofir yfir og ég held áfram að sötra og bryðja og kjammsa og pikka í lyklaborðið með kámugum fingrum. Síðan tek ég dramatíska pásu. Þannig varðveiti ég stóískt hugarflug fræðimannsins. Klukknahljómurinn hækkar og ég neyðist til að líta upp þegar vængjuð vera hamast hvað af tekur í brjósti mínu og brýtur sér að lokum leið út - um bringuna að ég held. Á meðan ég horfi á eftir hvítum vængjum fljúga niður Holtsgötuna, í átt að sjónum, get ég ekki annað en brosað út í annað því ég veit - að þeta blessast...