föstudagur, 10. apríl 2009

Fyrir utan gluggann minn

Veðrið er svona líka gott
og sólin er svona líka hátt á lofti
Það er vor
og auðvitað ætti ég að skella mér í göngutúr
í vorinu
í sólinni
hjá sjónum
en ég get ekki verið ein
ekki núna
í staðinn slekk ég á veðurfréttunum
og sker epli með bitlausum hníf
sneiði
hjá tilverunni fyrir utan
og bíð eftir því að eldingu slá niður
dagurinn byrjaði reyndar í sundi
i sundbol fléttuðum úr birkigreinum
sem báru óþroskaða brumknappa

(K.Ó.)
Ef þú sléttir úr dúk hermir þú eftir Guði
Ef þú leggur á borð fyrir þig eina hermir þú eftir Guði

(Kristín Ómarsdóttir)

þriðjudagur, 17. febrúar 2009

umhleypingar = zebrafjöll

sunnudagur, 8. febrúar 2009

Þetta var eftirminnilegur dráttur! gólar hann kotroskinn, maðurinn með grímuna og græna hattinn. Með skjálfta í kroppnum öllum halla ég mér fram og miða af veikum mætti á hvítt postulínið. Blóðugt slím neitar að skilja sig frá upphafsstað sínum og ég sit í sömu stellingunni, dofin og bogin yfir vaskinum eins og dýr í taumi. Að lokum kemur kona klædd hvítum buxum og blárri mussu og aumkar sér yfir mig. Hún réttir mér tissjú og færir mér vatn. Þegar hún tekur við tómu glasinu greini ég í augum hennar skilningsríkt bros.
Í garðinum er hola. Þegar ég halla mér aftur í stólnum og gjóa augunum til vinstri sé ég hann liggja í blóði sínu, í tveimur hlutum. Andvana á grænum bakka, vinur minn jaxlinn. "Svona var hann þá klofinn" huxa ég með mér, "líkur mömmu sinni, þessi elska..."