sunnudagur, 24. janúar 2010
Það var hann afi minn sem kenndi mér að standa á haus. Þá var hann kominn fram yfir sextugt. "Þú þarft bara að ímynda þér að þú sért þriggja fóta kollur, þannig finnurðu jafnvægið..." Svo lék hann fyrir mig þriggja fóta koll á gólfinu í sparistofunni á Hvilft, við hliðina á gamla sófanum með bogadregna bakinu sem fannst í fjörunni í fyrndinni - eftir að heldri manna skip frá Noregi hafði strandað í firðinum. Ég æfði mig frameftir degi, á meðan afi fór aftur út í skemmu að stússa. Seinni partinn var ég svo búin að mastera kollinn og við endurtókum leikinn ... saman á teppalögðu sparistofugólfinu. Þannig var hann afi minn.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli