fimmtudagur, 22. janúar 2009

Við sitjum í lest. Svo mikið þykist hún vita, litla skottið sem er orðin svona stór. Heillra fjögurra vetra sú arna. Situr roggin og lætur móðan mása á meðan hún bryður púkahlaup. “Mamma, þú mátt fá bleikann” segir hún og brosir eins og Móðir Theresa um leið og hún réttir mér molann sem hún hefur veitt upp úr gulum pakka. Ég reyni að sannfæra hana um að farartækið sé ekki lest heldur rúta en hún tekur ekki aðra eins vitleysu í mál.
Leiðin liggur í gegnum upplýst göng og hvíta firði. Við stefnum að flugvelli sem er handan við þorpið sem er ekki mitt. Sviptivindur ku vera orsökin fyrir breyttum brottfararstað. Hina firðina og bæina í þeim þekki ég eins og lófa minn og í líkama mínum hefur með árunum myndast grafískt landakort af þeim. Hið sama á ekki við um þetta þorp. Húsin eru óreglulega dreifð um hlíðina, göturnar ekki rúðustikaðar á flatri eyri eins og heima. Ég verð áttavilt hérna, hefur aldrei tekist að henda reiður á þessum stað þótt fallegur sé. Þegar við erum á leiðinni út úr þorpinu keyrum við fram hjá kirkjugarði. Upplýstir krossarnir standa vaktina líkt og orðum prýddir riddarar. Veggurinn umhverfis garðinn er steinsteyptur, gamall og hvítur. Yfir hliðinu er bogi, alveg eins og heima, fyrir flóðið.
Ég hef ekki tekið eftir þessum garði fyrr. Auðvitað á hvert þorp sér kirkjugarð. Hvers vegna bregður mér þá svona við að sjá þennan? Ég veit að það tengist minningum sem þyrlast upp í vestfirska vetrinum og ferðalaginu sem við mæðgur erum á. Líklega hefur það fátt að gera með kirkjugarða þannig séð. En ég sakna gamla garðsins heima.

Sólin brýst fram úr skýjunum og fyllir farþegarýmið skærri birtu. Ljósi sem verður að ágengri áminningu um forgengileika. Funuskott miðar af öryggi á þar til gerðan poka og kastar upp fernu af Trópí og pakka af hlaupköllum. Stuttu seinna stöndum við á fjórum jafnfljótum í höfuðborginni. Það er stutt í byltingu.

laugardagur, 17. janúar 2009

borða hafragraut með sultu
draga krakka á sleða
hætta að hlusta á fréttir

fleiri tillögur?

fimmtudagur, 15. janúar 2009

í þessum firði
er veröldin blá
á morgnanna
og kvöldin

bleik og gul á daginn

ég veit af sólinni
handan við brattann
og þegar ég lít til hægri
blasa við svartir hamrar

fór í blokk
í brekku
drakk kaffi
og reykti á svölum
labbaði um bæinn

kom heim og kveikti á útvarpinu
þrumuræða Eiríks
í bland við Bubba
kallar fram minningar
úr litlu þorpi
1987