föstudagur, 23. maí 2008

skák og mát

Svona er maður nú gamaldags með vatnslausa sturtu og sprungið postulínsöryggi. Eyddi morgninum á óeinangruðu háalofti, innan um rykugar töskur, kattahár og plastkassa með barnafötum. Skrúfaði og skipti en gafst svo upp og dýbbði mér í laugina. Í pottinum fer maður að hugsa allskonar... Til dæmis um jákvæðu hliðar þess að vera svo blankur að maður eyðir morgninum í að velta vöngum yfir því hvort fimmtíköllunum sem eftir eru í jakkavasanum skuli eytt í sundferð eða kaffibolla. Ef maður velur kaffið, þá hrekkur klinkið upp í hálfa sundferð, sem dugar jú skammt. Ef maður velur sundið, nú þá er alltaf hægt að sníkja kaffi hjá góðri vinkonu. Ekki get ég helt upp á heima ... nema mér takist að skrúfa rétta stykkið á réttan stað á eftir þegar ég er búin að láta skrifa hjá mér nýlenduvörur hjá mínum lókal kaupmanni. Lengi lifi þeir! Burt með bankana sem tæla og féflétta mann þar til maður er orðin svo spenggrannur að maður þarf að fara aftur í bankann og sníkja yfirdrátt fyrir fötum í nýjum stærðum.
En sumsé, lífið er dásamlegt og maður miðar best af jaðrinum. Hungruð augu skýra sjónina og hviss!, aldrei að vita nema maður hitti beint í mark. Miðjan er alltaf svo helvíti berskjölduð...
Og nú ætla ég aftur heim á háaloft, að máta ...

fimmtudagur, 8. maí 2008

Kjötborg á Skjaldborg. Íhaaah!!