mánudagur, 31. mars 2008

Já elskurnar, leikhúsið er brothættur draumur sem þegar best lætur breytir sér í sexvængjað og rammgöldrótt kvikindi, fjórhöfða veru sem veitir blindum sýn.

Þetta er niðurstaðan af stórkostlega skapandi misskilningi sem forvinnan fyrir BA-ritgerð mína leiddi af sér. Nánari rannsókn leiddi hið sanna í ljós, Seraphiminn hans Artaud er ekki sexvængjaður serafi við hlið alvaldsins heldur aðeins jarðneskur senjor Serafino nokkur, ítalskur leikhússpekúlant síðan sautjánhundruð og súrkál. Hann var víst spesíalisti í skuggamyndum karlinn sá...

Draumurinn um leikhúsið
getur valdið ofsjónum
blómin mín
en það er alltílæ
því ofsjónir eru skapandi
hafir þú táslurnar
réttum stað

laugardagur, 29. mars 2008

Morgnar sem koma kaldir og heyra undir marsmánuð henta einkar vel til hvítþvotta. Hvaða morgun hentar ekki til að þvo hvítt spyr ég nú bara. Hef ekki vaknað með kolamolann á kassanum lengi en í morgun var hann að myndast við að koma sér fyrir, eins og Gosi þegar hann hringar sig makindalega ofan á bringunni. En seiseisei, þá stekkur maður bara á fætur, opnar út í garð og stingur í vélina. "Og skorstensfejeren gik en tur, gik en tur..." Þvottaefni og ferskt loft gera galdurinn og hviss! brjóstið er hreint, galopið og reiðubúið til að taka á móti undrum þessa sólríka þvottadags. Í þessum degi býr labbitúr niður að sjó, vinna, lestur og afmæli litla bróðurs sem er orðin svo stór. Kolamolinn hefur breyst í sexvængjað fiðrildi sem stafar gylltum geislum í áttir allar.

þriðjudagur, 25. mars 2008

ó ó
ég þrái sumar og sól
æ æ
í þessum bæ
við úúúúfinn sæ
úúhúuhúu....

á háaloftinu mjálmar hann kisi minn
best að gera hlé á súkkulaðiátinu
og hleypa honum niður
til mín
inn úr kuldanum
og gefa honum rækjur
og rjóma
friðar samviskubitið
rjóminn

ég sakna skottunnar minnar
sérstaklega á þessum tíma sólahrings
lúin í fótunum eftir vaktina
langar mig að heyra muldrið hennar
upp úr svefninu
nóg af gullkornum þar

en við Gosi höfum það sossum ágætt saman
lónlýblúbojs
og rifjum upp málshætti
síðan í fyrradag
oseisei

mánudagur, 24. mars 2008



Margt hefur á dagana drifið og óðum styttist í aprílgabb og húllumhæ í vorinu. Vampírukossinn strauk mér blíðlega og vakti af vetrarblundi. Tunglið var fullt og báran blá og asskoti er gott að pissa í fjörusand.

Í tilefni páskanna var stiginn byltingarsinnaður upprisudans í garðinum.