fimmtudagur, 31. janúar 2008

Helvítis harðjaxlinn brotnaði í tvennt og nú glittir í silfrið. Rotinn niður í rót skrattinn sá. Best að gerast bara sjóræningjamamma, fá sér staurfót og arka bölvandi um bæinn, glenna ginið og ógna með gulltönn eins og gömul og harðsvíruð forysturolla.

þriðjudagur, 29. janúar 2008

ekki ekki

Það ku vera móðins á meðal ungra og gáfaðra að gerast yfirlýstir "ekki-bloggarar". Snúum upp á það og gerumst framúrstefnulegar og yfrlýstar "ekki-ekki-bloggarar". Tilveran samt dáldið undirlýst nú um mundir...

mánudagur, 28. janúar 2008

tsjutsjuuu...!

Ó að þessi hryllingsvika hafi bara verið stök bára, kroppurinn er orðin svo lúinn af því að hlaupa á veggi, stendur ekki af sér fleiri bylgjur í bili. Zizek hlær að öllu saman en ég vil bara búa inni í húfunni minni. Bót í máli að vera ekki fótbrotin. Hef sumsé reynt það á eigin skinni að sigurglaðir Sjálfstæðismenn í bland við Elvis-sveiflu á rúmgóðu eldhúsgólfi er afar áhættusamur kokteill... Slysavarðstofan er ekki kósý staður en þar hafa hins vega allir farið á námskeið í góðum samskiptum og lært að segja "gangi þér vel!" í kveðjuskyni. Það verður gott að komast aftur í þennan heim einhvern timan á næstunni, aaaaaahhhtsjúúúúhhhh!

miðvikudagur, 23. janúar 2008

ha,ha! allir að fara hér niður og til hægri og smella á "aujukall", þar eru svo fínar myndir af uppvakningum ásamt nokkrum af hinum ótal mörgu mönnum sem þiggja borgarstjóralaun um þessar mundir!

sunnudagur, 20. janúar 2008

ég finn þennan líka sterka ilm af breytingum - á hverju horni ...
Það eru svei mér þá helgispjöll að fara í Ikea á sunnudegi

föstudagur, 18. janúar 2008

þjónustufulltrúar eru mislynd grey, Ikea er allt of langt í burtu, þarfasti þjónn Íslendinga er bíllinn og munið nú að skola tómatana elskurnar...

miðvikudagur, 16. janúar 2008

dagskripi

Mér líður ekki lengur eins og nýbornu lambi. Kannski bara betra að hrúga öllum leiðinlegum, erfiðum og pirrandi atvikum á einn dag í staðin fyrir að dreifa þeim yfir lengri tima. Stikkorð þessa vansvefta dagskrípis eru sturtuflóð, kattaskítur og allt of stór skammtur af fólki sem er erfitt að hitta. Eða er þetta bara ég ...

þriðjudagur, 15. janúar 2008

krunk af rauðu þaki

Svei mér þá, maður er bara eins og nýborið lamb í borg sem er svona þakin hvitu. Ekki sem verst að moka tröppurnar í kompaníi við háttsettan krumma sem krunkar í takt við skrapið í skóflunni...

mánudagur, 14. janúar 2008

æi þetta er sossum ágætis líf, tómur baukur en þjórfé helgarinnar sér manni fyrir kaffibolla. Beinin svo ósköp lúin og í dag mun haldin hvíldardagur. Við mæðgur skoðuðum ísilagða tjörn í gær og mikið sem það var gaman. Skyldu skautarnir enn leynast á loftinu háa og ísinn haldast á pollinum? Ó hvað ég vona...

Núnú, Bíbí mælir að sjálfsögðu með Ástunni í Suðrinu sem flytur pistil um samgöngur í S-Afríku í "Víðu og breiðu" á RÚV í dag...

sunnudagur, 6. janúar 2008

Árið tvöþúsundogátta er hvorugkyns vin og byrjar vel. Vinkona hringdi og minnti mig á að forðast gegnumtrekk, barnapía færði mér Apex Twin og tvíburamamma sagði mér að samkvæmt talnaspeki munir þú vera örlagaár. Jólin enda líka vel og ég dragnast með jólatréð út á götu, á sokkaleistum í nóttinni. Og Kertasníkir er áreiðanlega rammvilltur einhversstaðar í Grafarholtinu, að leita að réttu leiðinni að fjallinu sínu... Úti í bíl bíður hún síðan, rakettan sem var keypt fyrir þjórfé á gamlársdag. Ætla að skjóta henni upp í heiðskýrt myrkur nálægt sjó. Örlygur kæri vin, við munum hafa það gott saman.

fimmtudagur, 3. janúar 2008

enn ein

lægðin yfir landinu og ég sem hélt að maður þyrfti að innbyrða áfengi til að verða timbraður!

miðvikudagur, 2. janúar 2008

Angandi og tregablandin að venju þessi mót. Fínt bara, að standa edrú uppi á hól og baða sig í sprengjuregni. Purple rain. Þykjast hvergi smeyk, þenja bringu og ögra bara einhverju. Horfa upp i svart ginið og steyta hnefann í laumi; "já, komiði bara, látiði vaða!". Andskotinn hafi það herra biskup, ég ætla að elska þessa gæsahúð, þessi tár og mæta "þvi nýja" með hreina sál. Helvíti gott bara.


Hún er annars komin til mín, hin alíslenska fagurfræði kartöflunnar
ilmandi af einfaldleika og hversdagslegum hetjuskap.