miðvikudagur, 26. desember 2007
miðvikudagur, 19. desember 2007
Bar þessa kassa alla út í bíl og út úr bíl og upp tröppur og stiga og mundi hvað ég flutti oft ein í gamla daga en ég hef ekki gert það lengi og þess vegna rankaði ég við mér við þetta rof á venjum, já fyndið að það skyldi vera orðin venja hjá mér að flytja með öðrum en þannig er það ekki lengur, ekki núna að minnsta kosti. Það er gott að finna fyrir sér, gott að bera alla kassana sjálf og gott að vinna fyrir aurunum sínum. Já elskurna mínar, Bíbí er orðiðn þjónustuskvísa í doppóttum kjól með blúndusvuntu á ónefndum stað við ónefnda grugguga tjörn og mér finnst það gaman, að leggja á borð og taka af borðum og þeysast með mat og fat og hella víni í glös og brosa framaní fólk og má ekki bjóða þér Tiramisu?! Oseisei, ætli maður sé ekki með óráði bara, komin nótt og þreytan farin að segja til sín. Langaði bara svo til að segja þér þetta herra Algeimur, ertu kannski frændi hans Altungu, nei djók og góða nótt bara. Jú, og síðan opnaði ég kassana og upp úr þeim streymdu allar þessar minningar, tíu kassar af fortíð takk fyrir og heyrðu, hún er nú bara dáldið sæt þessi stelpa þarna á myndinni, svona líka brún og algjör skutla að krúsa um grísku eyjarnar, já einu sinni var og engin veit sína ævina...
fimmtudagur, 13. desember 2007
vaxholkur
Sker niður appelsínur og stoppa í ævagamlar blúndugardínur. Kveiki á gufunni með blóðugum fingrum og heyri rödd Ólafar frá Hlöðum tala til mín úr eilífðinni. Þessi elska. Hún kveður um konur og hún kveður um menn. Rómurinn er forn og slátturinn þungur og ég finna að þá var ég ófædd en nú er ég hér og hamraðu Ólöf hamraðu mig með bylgjunum þínum, ég heyri brak og ég heyri bresti og röddin þín er faðmur og við hreyfum okkur saman í takt við ískrandi snúning vaxhólksins. Ég sé þig taka skæri og klippa síða hárið og ég heyri skröltið í prjónunum þínum og krafsið í pennanum þínum og þegar þú þagnar sakna ég þín, mænan er víst eins og gömul símasnúra og þegar maður klippir hana standa taugaendarnir í allar áttir...
fyrir þig Jane
Eftir tuttugu og fjórar klukkustundir plús tvær verð ég frjáls Jane ég verð frjáls eins og þú en akkúrat núna er ég flækt í söguna þína Jane og ég fíla það og ég veit að ég kemst hvort eð er ekki út fyrr en á morgun plús tvær klukkustundir Jane mín Eyre það er gott að vera núna þú og ég vil líka finna frelsi og ég vil líka arka um heiðar og ég vil líka vera sterk og ég vil líka finna minn Rochester svona eldheitan og myrkan djöfska og sálufélaga og spegil og allt og tuttuguogfjórirplústveir og þá er ég flogin!
laugardagur, 8. desember 2007
Skammdegi
Labbaðu ljúfan mín eftir endilöngu Bergstaðastræti. Jájá, ég veit, maður hefur nú frekar tilhneigingu til að grúfa sig niður, setja höfuðuðið undir sig og rýna í ræsið, telja línur og fantasera um svarthol og hindurvitni. En góða mín, röltu þessa götu og horfðu svo beint af augum (ekki upp, þá missirðu af henni þessari elsku). Þá mætir hún augunum þínum, svona líka kringlótt og heit, glóandi gull. Baðaðu þig í glóðinni stelpa, settu stút á varirnar og rektu framan í hana tunguna, rauða og sæta. Breiddu út faðminn og stútfylltu tankinn!
Út um eldhúsgluggann sé ég upplýsta rák á ljósbláum himni. Fyrir stafni er þota.
Út um eldhúsgluggann sé ég upplýsta rák á ljósbláum himni. Fyrir stafni er þota.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)