föstudagur, 30. nóvember 2007

"kartöflum" svaraði hann

Kuldaleg þessi hlaða úr steini. En þá verður maður bara að sanka að sér bókum. Tína þær úr hillunum, rogast með hlassið í hólfið sitt og koma sér makindalega fyrir - eins og belja við básinn sinn. Jórtra á síðunum eins og rolla í fjárhúsi og drekka kaffi í tonnavís eins og tannlaus og sköllóttur bóndi.

Rölta svo heim með góða samvisku og bækur í hvítum plastpoka. Hitta einn frá fornu fari og draga hróðug Málfríði upp úr pokanum: "Sjáðu! Ég tók Málfríði Einarsdóttur á bókasafninu." "Bíddu, hver er hún aftur? Flott kápa." (Hann á sum sé ekki við mína, heldur þá á bókinni). Ég byrja að muldra eitthvað um fallegt tungumál og idolið hans Guðbergs en þá rifjast upp fyrir mér hvað við erum - og vorum, ólík. Hann í beisikk stöffi og ég alltaf í smá vandræðum með að halda sjálfinu innanborðs...

En textinn hennar Másu flæðir ekki yfir bakka:

"Hvað ætti það að vera?" spurði konan. "Kartöflur," svaraði hann. "með hverju?" spurði hún. "Kartöflum," svaraði hann.

(úr Auðnuleysingi og Tötrughypja)

miðvikudagur, 28. nóvember 2007

og talandi um það, smá drekaspá frá Lutin:

Don´t even bother to try to hide love, grief or passion, because WATER IS UNPREDICTABLE.

Það er nebbla það.
Ég er ekkert á leiðinn þangað sko,
rýni bara i lykkjurnar
og prjóna mig burtu frá passjóninu sko.
Gugna hvort eð er alltaf á Vesturbæjarlauginni...

ruggirugg og rororo

Allt í einu rann það upp fyrir mér. Lífið er bara þetta. Þessir prjónar, þetta garn, þessi rigning, þetta skammdegi, þetta uppvask. Haltu fast í það stelpa og ekki vænta of mikils. Þannig er það best. Borgar sig ekki að rugga bátnum...

fimmtudagur, 22. nóvember 2007

varla macro (spænsk leikkona)



ég held að þetta sé ekki ég kannski brot í fortíð eða framtíð inni eða úti í micro en varla macro

mánudagur, 19. nóvember 2007

elsku besta heljargin...

Ég ræð ekki við það. Eins klisjulega og það hljómar, þá myndar þetta þorp, þessi fjöll og fjörðurinn allur landakort af sálu minni. Ég þekki engan stað jafn vel. Ekki einu sinni mig sjálfa. Þessi fjörður er ekki kvikull, hann er stöðugur, úr föstu efni og alltaf þar. Alltaf hér. Og heilög María hvað mig langar Vestur í þennan faðm. Þetta verndandi heljargin. Ég stelst þangað í huganum annað slagið, ýmist í draumi eða vöku. Mig langar bara í smá skammt. Nokkra daga af súrefni úr firðinum mínum. Þarf svo mikið að fylla á tankinn. Hlaupa upp brattann og finna sársauka í lungunum af áreynslu, rölta í fjörunni og strjúka steinunum. Finna kuldabola bíta í kroppinn. Jamm, það langar mig. Ég faðma þennan fjörð. Hann er inni í mér og þegar við hittumst, þá er ég heil. Hann er mitt heima. Þannig er nú bara það.

Fix a fiskatimum

because you know who is waching us
and I don´t mean the government
...
so abandon selfserving agenda
...
and oh yes
water is unpredictable

sunnudagur, 18. nóvember 2007

pastelrugl

Ókey, til að fyrirbyggja allan misskilning þá var ég að fíflast.
Og þetta er ekki Þorgrímur Þráinnsson, enda myndi hann ekki einu sinni snerta menthol! Borðar örugglega ekki majones heldur.
Bíbí og Þorgrímur - glatað par.
Gleymið því!

föstudagur, 16. nóvember 2007

Majones (þú varst hjá mér...)

Mig dreymir þig í pastellitu herbergi. Yfir hnjánum er hvítt lak. Tveir tindar í svissneskum ölpum. Þú liggur í rúminu og reykir menthol. Blæst hringi og stróka til skiptis. Þegar þú hreyfir þig heyri ég gutl í vatnsdýnu. Þú ert súkkulaðibrúnn páskaungi, loverboy í Hollywoodmynd. Hárið gyllt og varirnar bleikar. Við smyrjum okkur franskbrauð með majonesi og skellum á það aspas og skinku. Örbylgjan gerir kraftaverk á ostinum. Klórum hvert öðru á bak við eyrun og skolum dásemdinni niður með súkkulaðisjeik. Í gegnum rifu á rimlatjöldum sé ég himinn, hann er bleikur og blár. Ég elska þig. Þetta er nylonveröldin okkar. Djöfull ertu sætur pastelgrísinn þinn. Halló?! Halló?! Ertu þarna?

ljómandistustustust

Mikið sem það er skemmtilegt að eiga afmæli. Klæða sig í undurmjúkt og fjólublátt silki, opna pakka og dansa fram á rauða nótt (við misfjarskylda ættingja) ræríræríræ! Elsku vinir mínir, takkedítakk! Þið eruð ljómandi kompaní (er til efsta stig af ljómandi?, held ekki, en ef það er til þá ætla ég að nota það í staðinn...)

laugardagur, 3. nóvember 2007

"Jæja skotta mín, eigum við að fara á myndlistarsýningu?" Litla veran rekur upp stór augu og stígur tvö skref afturábak. Horfir stíft á mömmu sína og spyr: "Er það hættulegt?" "Nei, nei" segir mamman en íhugar um leið hve stórkostlegt það væri að komast á hættulega listasýningu, að vera á leiðinni í Bónus en koma við á Nýló og komast í hann krappann. Finna tilvistina hanga á bláþræði, upplifa smáskammt af lífsháska áður en maður fer að kaupa klósettpappír, kattamat og mjólk. Lífsháskinn náttúrulega jafn gufaður upp úr myndlistinni og öðru sviðum la vida. Það er helst að verða fyrir matareitrun eða erlendum flóttamanni í hælisleit, þeir ógna jú þjóðaröryggi þessir déskotar. Kannski að sjósund sé málið. Náttúrulega lífsfylling í lífsháskanum sko, tilgangur í baráttunni. Niðurstaðan verður öryggið heima, möllum okkur heitt súkkulaði og setjum upp sýningu á eigin vatnslitamyndum. Bjóðum svo bara herra Háska á opnunina.