mánudagur, 29. október 2007

Kannski

að tilgangurinn fari að flæða sem ólmur nú þegar styttist í próflestur. Dettifoss af djúsí stöffi fyrir huga og sál. Það skyldi þó aldrei vera. Auðvitað hefur maður ekkert nema gott af örlitlum utanaðkomandi þrýstingi. "Kveður þú foss minn forni vinur / með fimbulrómi sí og æ / undir þér bergið sterka stynur... " svo man ég ekki meir, minnir að næsta lína gangi út á viðkvæmt strá undir verndarvæng kletts og fossa. En víkjum að öðru, tími til kominn að hitta elskurnar sínar, dreypa á rauðvíni og lesa með þeim ljóð eftir löngu dauða íslenska karla. Þá hlýtur andinn að fara á flug og við getum andskotast þetta saman - ölvaðar og andsetnar. "sem strá í nætur kuldablæ..." Ég er ekki að grínast.

Hlustið

nú á óvenju vitrænt leikhússpjall Jórunnar og Jóns (ekki Viðars...) í Víðsjárþætti dagsins. Þar heldur Jón Atli því til dæmis fram að hégóminn sé það sem stendur íslensku leikhúsi einna helst fyrir þrifum.

mjaaauuu!!

Kötturinn minn er vitlaus. Hann heldur að hann sé læstur úti á þaki, fattar ekki opinn glugga sem stendur honum til boða. En ég tala ekki kisumál og þarf því að umbera mjálmið þangað til hann uppgötvar sjálfur að hann kemst inn um þennan galopna glugga. Á meðan skelli ég gluggunum hér á neðri hæðinni í lás, til að hlífa eyrum og viðkvæmum taugum konu á röngum tíma mánaðarins. Hækka í útvarpinu, á auðveldara með að umbera notalegt Víðsjármalið í Eiríki. Þessi rangi tími vill reyndar oft leiða af sér ágætis aðgerðir. Til dæmis smásmugulega vandvirkni við ítarleg þrif á ruslaskápum með fúkkalykt og lekum pípum. Smávaxna undraveran varð innblásin af mömmu sinni. "Mig langar að þvo tunguna mína" sagði hún eftir að hafa heillast af og bitið í fagurrauðan chilli og þrjú glös af Ribena höfðu ekki gert trikkið. Já, þannig líður mér líka þegar ég stend sjálfa mig að of stórum skammti af kvarti og kveini. Hvernig var þetta annars með sápuþvott og barnatungur í gamla daga? Æi, ekki nema von að aumingjans kötturinn væli í þessum kulda. Kynni ég katttamál Gosi minn þá myndi ég segja þér að snjókornin græða (Eiríkur er á flugi í dag og kallar þau "blóm") og að þér standa allir vegir opnir, kannski ertu ekki vitlaus, þú þarft bara að átta þig ljúfurinn. Velkominn vetur.

föstudagur, 26. október 2007

Even the pope is hungry today

jájá ljúfurnar, það gerir tunglið
Ef ég sofna ætla ég Vestur, í afahús. Þrýsta enninu upp að rúðunni og horfa út fjörðinn, á ljósin á eyrinni.

blussa jakki sokkur ...

Inn um lúguna læðist harðspjalda barnabók með blárri kápu. Innihaldið er notalega mjúkt: "Háttatíminn minn". Best að setja upp furðusvip. Skemmtilegra að vita sem minnst um uppruna óvæntra glaðninga. Langar til að taka stökkið út í nóttina og yfir tjörnina, fljúga yfir þessar greinar, fram hjá þessu stóra tungli. Með bókina undir vinstri hendi. Enda í gráu skeljasandshúsi með útsýni yfir vinnuvélar og sjó. Hjúfra mig á milli tveggja líkama, misstórra, undir dúnsæng sem yljar. Lesa hátt og snjallt:

Háttatími, þá háttum við
hengjum upp dagsins klæði vel
Setjum til hliðar sokka og skó
sátt og glatt er vort hugarþel.

Síðan á að benda:

blússa
jakki
sokkur
skór
kjóll
sokkur

Í staðinn hjúfrar sig að mér bröndóttur köttur með græna ól, undir gulum hálfmána úr plasti.
Það veit sjaldnast á gott að dreyma tennur, hvað þá tannmissi. Tennur eru rætur.
Hvað eru nokkrar dauðar rottur á milli þilja?

blússa
jakki
sokkur
kjóll
tönn
veiðihár
skott
ól
kló
...

mánudagur, 22. október 2007

frændur eru fínir
fyrrverandi eru ágætir
en heyra fortíðnni til
frændur eru nokkuð stöðugt kompaní
tala nú ekki um
ef maður man eftir
því að snæða með þeim vöflur
af og til
núið
er líka ágætt bara
faðmlög eru ljómandi
sérstaklega þau sem vara heilar nætur
sjúddírei
kristallar gera kraftaverk
og mikið sem það er gaman
að dilla sér í bláum kjól
ó já!

föstudagur, 19. október 2007

kökudeig


Þetta er sem sagt eldhúsið mitt - já, og sólin. Ég er voða mikið þar núna. Meldaði mig hvorki inn á ljóðahátíð, frumsýningu né Airwaves. Sequenses mun líklega sigla óséð hjá líka. O sei sei. En, ég hélt hið fínasta afmæli, bakaði, eldaði mat, málaði veggi, þvoði ullarföt í höndum, hengdi upp þvott, hengdi upp þvott, hengdi upp þvott... og nú horfum við saman á Barbafjölskylduna. Barbapabbi er allt umvefjandi vera, breytir sér í kyrkislöngu og krana og bjargar fjölskyldunni úr kjafti krókodíla. Ég fíla Barbapabba. Væri til í að eiga einn svona sprellifandi metamorfósupabba. Því hann er fljótandi eins og ég, ekki óumbreutanlegur fasti, ekki tvívíð mynd, o seiseinei. Bara mjúkt og bleikt kökudeig sem passar upp á sína.

miðvikudagur, 17. október 2007

nokkuð ljost

Mála veggi eins og óð. Hvitt yfir þrúgandi brúnt. Léttir, léttir, léttir. Er víst ekki ein af þeim sem sjá ekki hvíta fleti í friði - finnst þeir verði að fylla út í alla birtuna. Nei, mín vil bara ljós, ljós og meira ljós. Bjart, bjart og meira bjart. Nenni ekki dramatík. Hún er búið spil. Elskulega líf, tökum slaginn! Já skotta mín, skorum nóttina á hólm því við eigum nóg af luktum. Og Yoko má fara að vara sig, luktirnar okkar eru alvöru og þær eru margar. Luktirnar okkar ljúfan mín, þær teygja sig í hring og allt um kring...

mánudagur, 15. október 2007

Sunnudagsmorgun og það hefur rignt blöðrum. Nema þær hafi sprottið upp úr gangstéttarsprungum eins og illgresi. Þær liggja á víð og dreif, samviskusamlega uppblásnar og ánægðar með sig, upprifnar eins og ungliðar í stjórnmálahreyfingu. Inni í porti liggur lítil krumpuð blaðra í drullupolli. Langt því frá að vera þrýstin sú arna. En hún er bleik. "Mamma má ég eiga þessa? Er þetta bleeeeiiika ammælisblaðran mín?"


Lítil yndisvera með whiskeyrödd átti afmæli á föstudaginn. Jájá. Maður á hálfgert afmæli sjálfur á svona dögum. Hún er svo kúl á því þessi elska og ákvað að slaka aðeins á eftir þriggja daga veisluhöld, eins og sannri stjörnu sæmir, með sólgleraugu og einkabílstjóra...

"mamma, eigum við að fara út í nóttina með lukt?"
"mamma, eigum við enga lukt?"
þar sem langá rennur eftir
langadal er svo ósköp stutt
í eitthvað ófætt sem minnir
á sig með blakandi vængjum

(Vésteinn Lúðvíksson)

fimmtudagur, 11. október 2007

i botn!

Skál fyrir þér Doris mín.
Mikið var...

þriðjudagur, 9. október 2007

ostemad

Regl nr. 1:
Naar man er trist saa skal man ikke snakke om triste ting, det bliver saadan lidt som ost oven paa ostemad.

margvísleg merking bakgarða

We are all here to relieve the suffering of others
not control them
so deal with your own issues
don´t blame
don´t bitch and moan
and keep reaching out
people love you
believe it or not!

Er ekki upphaf nýrrar viku góður tími til að sá fræjum sem þessum?
(Á íslensku útleggst þetta líklega sem "haltu þig á mottunni!")

laugardagur, 6. október 2007

kotilettur

Tilveran óneitanlega tómlegri á pabbavikum. Sérstaklega fyrstu dagana sem eru seigfljótandi andskotar. Vel meinandi frænka birtist með plastpoka fullan af heimaslátruðum kótilettum á síðasta snúningi. Gapandi kjötpoki á eldhúsborði. Magnar upp einsemdina þessi déskoti. Gott ef hann hlær ekki hrossahlátri, hahaha! Best að fá sér að reykja. Kompaní í því. Maður getur sossum ráðist til atlögu en þá verður að velja hæsta tindinn, ógurlegasta skrímslið, mestu líkurnar á sigri þar. Ráðast á kjötfjallið með kjafti og klóm. Marínera kótilettur og elda fyrir ímyndaða gesti. Lesa smá í Ógleðinni hans Sartres, nóg af kjötskrokkum þar. Fara síðan í bíó, ein á laugardagskvöldi. Jájá, sossum áskorun í því. En neinei, hvaða vitleysa. Caprí skilur þig aldrei eftir eina. Og hurru! Er ekki púrtvínsflaska í hornskápnum? Svo er lambakjöt alltaf gott daginn eftir, með góðri sósu og svona. Mig langar til útlanda.

fimmtudagur, 4. október 2007

einu sinni api...

"Ég er maður og það er nóg til að láta sér líða illa".
Þannig komst enskur rugludallur og kirkjugarðsskáld að orði.
Meiri vitleysan.
Einu sinni api, ávalt api....

miðvikudagur, 3. október 2007


Þessa dagana eru það haustlitirnir sem rúla. Svo hlý þessi gulu og rauðu blöð. Velkominn október.

mánudagur, 1. október 2007

lög og regla

Leikfimikennarinn minn er húmoristi. Ekki sem verst að eyða hádeginu í að gera "maga, rass og læri" við undrleik djúpra radda Lögreglukórsins.